Rögnvaldur Guðmundsson tengir hér vökvun á grænmetið í Ólafsdal.

Sumaropnun hefst á sunnudaginn í Ólafsdal

Sumaropnun hefst í Ólafsdal í Gilsfirði næstkomandi sunnudag og verður opið til 15. ágúst. Opnunartíminn er milli klukkan 12 og 17 alla daga. Eins og áður hefur komið fram eru miklar framkvæmdir við uppbyggingu staðarins og opnunartímabilið því með stysta móti.

„Þrettánda Ólafsdalshátíðin verður haldin laugardaginn 14. ágúst og daginn eftir er síðasti opnunardagurinn þetta sumarið. Í ágúst munu fornleifafræðingar á vegum Fornleifastofnunar Íslands halda áfram vinnu að uppgreftri á víkingaaldarskálanum í Ólafsdal (frá 9.-10. öld) og öðrum fornum minjum, fjórða sumarið í röð. Áætlað var að rannsóknirnar myndu taka þrjú sumur en ljóst er að lengri tíma þarf, enda er um flókið verkefni að ræða. Þessi fundur staðfestir a.m.k. 1000 ára sögu og eykur enn menningar og sögulegt gildi Ólafsdals. Það er því mikilvægt, þegar uppbyggingu líkur, að til staðar verði góð og vönduð fræðslu og upplýsingagjöf fyrir gesta,“ segir í frétt frá Ólafsdalsfélaginu.

Staðarhaldarar í Ólafsdal 2021 verða Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Ólafsdalsfélagsins og eiginkona hans Helga Björg Stefánsdóttir. Elfa Stefánsdóttir og Haraldur Baldursson (sem verið hafa staðarhaldarar 2015-2019) munu leysa þau af ásamt systkinunum Torfa Ólafi og Sigríði Maríu Sverrisbörnum Markússonar, Torfa Bjarnasonar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir