Ljósm. úr safni.

Akranestorfæran verður haldin um helgina

Torfæruklúbbur Suðurlands heldur Akranestorfæruna næstkomandi sunnudag, 25. júlí. Keppnin er fjórða umferðin í Íslandsmeistaramótinu í torfæru. Að sögn Helgu Katrínar Stefánsdóttur, formanns Torfæruklúbbs Suðurlands hefur undirbúningur gengið ótrúlega vel en aðstandendur naga sig þó í handarbökin í óvissu um til hvaða aðgerða ríkisstjórnin mun grípa í dag, föstudag.

Helga Katrín segir að keppnin verði haldin hvað sem tautar og raular og ef verða komnar samkomutakmarkanir þá geti allir fylgst með keppninni í streymi á motorsport.is.

Að sögn Helgu Katrínar hefur spennan í Íslandsmótinu sjaldan eða aldrei verið meiri og skilja aðeins 16 stig á milli fyrsta og sjöunda sætis. Alls eru 16 bílar skráðir til leiks og eru öll stærstu nöfnin skráð til keppni. Fjórir efstu menn í Íslandsmótinu mæta. Skúli á Simba er skráður en hann leiðir Íslandsmótið, Snorri Þór á Kórdrengnum, Haukur Viðar á Heklunni, Geir Evert á Sleggjunni en hún er nýsmíðuð. Þá mætir Atli Jamil á nýjum bíl sem er nýkominn frá Svíþjóð en hann keppti í fyrsta skipti á keppninni á Blönduósi á nýja bílnum um nýliðna helgi. Eknar verða sex brautir og vonast Helga Katrín eftir miklum tilþrifum.

Bein útsending á motorsport.is hefst kl. 11 og keppnin sjálf hefst kl. 13:00. Aðgangseyrir að keppninni eru 2.500 krónur og gildir það verð bæði fyrir keppnina sjálfa og streymið. Frítt er fyrir 12 ára og yngri.

Hlekkur á motorsport.is og streymið frá torfærukeppninni á sunnudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir