Tónlistarhátíð í Reykholti um helgina

Reykholtshátíð, sem fram fer um helgina 23. – 25. júlí, fagnar 25 ára afmæli sínu í ár en hún var fyrst haldin í Reykholti árið 1997 og er ein af elstu tónlistarhátíðum landsins. Hátíðin hefur alltaf verið haldin í kringum vígsluafmæli Reykholtskirkju sem ber upp á síðasta sunnudag júlímánaðar. Á hátíðinni í ár verða fernir tónleikar, fjölbreytt og skemmtileg efnisskrá og frábærir músíkantar, bæði tíðir gestir á Reykholtshátíð sem hafa sumir hverjir fylgt hátíðinni frá upphafi og aðrir sem eru að koma í fyrsta sinn fram á hátíðinni í ár. Í tilefni afmælisársins verður frumflutt nýtt verk eftir Ingibjörgu Ýr við ljóð Þorsteins frá Hamri sem var ættaður úr Borgarfirði. Yfirskrift hátíðarinnar, sígild tónlist í sögulegu umhverfi, lýsir vel inntaki hennar og áherslum. Sveitasælan í Reykholti og fagur hljómburður Reykholtskirkju veitir bæði áheyrendum og tónlistarmönnum tækifæri til að upplifa hágæða tónlistarflutning á einum sögufrægasta stað landsins.

Á opnunartónleikum Reykholtshátíðar sem hefjast klukkan 14 á föstudeginum mun Herdís Anna Jónasdóttir flytja þekktar óperuaríur ásamt Bjarna Frímanni Bjarnasyni píanóleikara. Þær Reykholtsstöllur Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari og Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari munu flytja strengjadúó Jóns Nordal, sem fagnar 95 ára afmæli sínu í ár. Einnig mun hljóma hinn ástsæli strengjakvintett Mozarts í g-moll með Sigurbirni Bernharðssyni og Gunnhildi Daðadóttur á fiðlur en þau eru að koma í fyrsta sinn fram á Reykholtshátíð. Listrænir stjórnendur hátíðarinnar, Þórunn Ósk Marinósdóttir og Sigurður Bjarki Gunnarsson taka einnig þátt í flutningnum auk Bjarna Frímanns sem tekur sér víóluna í hönd.

Á laugardeginum verða tvennir tónleikar: Klukkan 14 hefjast tónleikar sem heita Sönglög og Schubert þar sem Herdís Anna ásamt Bjarna Frímanni syngur lög aðallega eftir íslenska höfunda og eftir hlé verður fluttur strengjakvintett í C-dúr eftir Franz Schubert. Klukkan 20 um kvöldið verða tónleikar sem nefnast Clara og Glazunov þar sem flutt verður strengjatríó í B-dúr eftir Schubert, sónata fyrir tvær fiðlur eftir Lecclair, dúett fyrir víólu og selló eftir Beethoven og þrjú sönglög fyrir sópran og strengjakvartett eftir Clöru Schumann. Eftir hlé verður svo fluttur stengjakvintett í A-dúr eftir Alexander Glazunov. Glazunov var eitt fremsta og virtasta tónskáld Rússlands um aldamótin 1900 og naut mikilla alþjóðlegra vinsælda. Kvintettinn eftir Glazunov er ægifagur og mætti tvímælalaust telja hann einn af földum fjársjóðum kammerbókmenntanna. Mögulega hefur hann aldrei verið fluttur á Íslandi áður.

Lokatónleikar Reykholtshátíðar verða svo á sunnudeginum þar sem fluttur verður píanókvartett í g-moll eftir Mozart og verkið Draumljóð eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur. Eftir hlé verður á dagskrá strengjasextett í B-dúr eftir Johannes Brahms. Á tónleikunum á sunnudeginum verður Steinunn Birna Ragnarsdóttir sérstakur gestur en hún var upphafskona þessarar tónleikahátíðar í Reykholti í tengslum við vígsluafmæli kirkjunnar.

Einnig má nefna að á laugardeginum klukkan 13 verður Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntafræði, með fyrirlestur um Þorstein frá Hamri og á sunnudeginum verður hátíðarmessa í Reykholtskirkju klukkan 14.

Líkar þetta

Fleiri fréttir