Röð í sýnatöku vegna Covid-19 á Akranesi. Ljósm. mm.

„Þetta er allt byrjað aftur, því er nú fjandans verr“

Sýnataka vegna Covid-19 er nú hafin að nýju víða um landið. Á Akranesi fer hún fram daglega klukkan 13 í sjúkrabílaskýlinu við Þjóðbraut 11. Þar mæta þeir sem eru boðaðir til sýnatöku, auk þeirra sem panta sjálfir sýnatöku í gegnum Heilsuveru.is. Smitum í þjóðfélaginu hefur nú fjölgað hratt síðustu daga í ljósi þess að á þriðja hundrað manns hafa veikst frá mánaðamótum. Þar af voru 78 greindir í gær. Fannar Sólbjartsson sjúkraflutningamaður hjá HVE er í því teymi sem tekur sýni hjá HVE. Líkt og margir er hann hundsvekktur yfir því að veiran hafi náð sér á strik af slíkum veldisvexti, en álag vegna hennar gjörbreytir starfsskilyrðum og vinnu heilbrigðisstarfsfólk. „Við verðum bara að bíta í það súra epli að ástandið hefur versnað,“ segir Fannar í samtali við Skessuhorn; „þetta er hreinlega allt byrjað aftur, því er nú fjandans verr,“ bætir hann við.

Að sögn Jóhannesar Bergsveinssonar yfirlæknis á heilsugæslu HVE voru tekin 107 sýni vegna Covid-19 á Akranesi í gær og í dag voru gestirnir um 40. Alla næstu daga verður sýnataka á sama tíma og stað, klukkan 13. „Henni lýkur svo strax og röðin endar,“ sagði Jóhannes en um klukkan 13:20 var búið að taka sýni hjá þeim sem boðaðir höfðu verið í dag. Þar með var pakkað saman og fólk gat haldið til annarra starfa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Banaslys við Akranes

Laust fyrir klukkan 21 í gær voru viðbragðsaðilar; lögregla auk björgunarsveita á Akranesi, Borgarnesi og Borgarfirði kallaðar út með hæsta... Lesa meira