Komið við í garðinum í Gröf

Hjónin Jón Eiríksson og Rut Hallgrímsdóttir búa í Gröf í Hvalfjarðarsveit. Þótt bæði séu þau komin á níræðisaldur slá þau hvergi slöku við að halda garðinum sínum við og öllu umhverfi húsanna. Margsinnis hlutu þau umhverfisverðlaun meðan Hvalfjarðarsveit stóð fyrir slíkum viðurkenningum.

Allt umhverfi í og við húsin þeirra ber vott um snyrtimennsku og alúð. Hvort sem það er trjágróður, beð, blóm eða styttur, öllu er haganlega fyrir komið. Trjálundurinn veitir gott skjól þeim fjölbreyttu plöntum sem þar eru ræktaðar. Blaðamaður leit við hjá þeim hjónum í hádeginu í gær og smellti nokkrum myndum. Gefur þær að líta í Skessuhorni vikunnar. Á meðfylgjandi mynd standa hjónin við steininn stóra í garðinum sem fóstrar þessa nægjusömu silfurreynisplöntu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir