Hamingjusamar lausagönguhænur. Ljósm. Grænegg.

Hænum sleppt úr prísundinni um áramótin

Frá og með næstu áramótum verður bannað að hafa varphænur hér á landi innilokaðar í þröngum búrum. Það byggir á reglugerð sem samþykkt hefur verið og snýr að velferð alifugla. Lausagönguhænur þurfa meira rými en búrhænsni og því eru nú í gangi umtalsverðar og kostnaðarsamar breytingar á hænsnabúum landsins. Eggjabændur þurfa að byggja talsvert stærri hús til að framleiða sama magn af eggjum. Kostnaður mun því hækka sem vafalítið á eftir að koma fram í hækkuðu eggjaverði. Í samtali við Bændablaðið sem kom út í dag sagði Stefán Már Símonarson, formaður Félags eggjabænda og framkvæmdastjóri Nesbús, að áætlaður kostnaður við breytingar íslenskra hænsnabúa sé um 15 þúsund krónur á hvern fugl sem alinn er og fjöldi varphænsna í landinu er yfir 200 þúsund. Þannig er kostnaðurinn vegna breytinganna áætlaður rúmlega þrír milljarðar króna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir