Digranesgata 2 sem nú hefur verið ákveðið að verði framtíðar Ráðhús Borgarbyggðar, auk þess sem Arion banki mun leigja hluta hússins fyrir starfsemi sína.

Gengið frá kaupum Borgarbyggðar á nýju ráðhúsi

Byggðarráð Borgarbyggðar hefur, í umboði sveitarstjórnar, staðfest kaupsamning á Digranesgötu 2 í Borgarnesi af Arion banka. Auk þess liggur fyrir samkomulag um leigu bankans á hluta húsnæðisins. Hafin er vinna við að skipuleggja húsnæðið til að þjóna því hlutverki að verða Ráðhús Borgarbyggðar. Vinna við breytingarnar verður síðan boðið út og því ekki ljóst nú hvenær framkvæmdum verður lokið og ráðhúsið opnað á nýjum stað. Húsið var eins og kunnugt er byggt yfir starfsemi Sparisjóðs Mýrasýslu en eftir að sjóðurinn fór í þrot tók Nýi Kaupþing banki, síðar Arion banki, við húsnæðinu og flutti starfsemi sína þangað.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti í vor að fela sveitarstjóra að skrifa undir kauptilboð á húsinu, en það var háð ástandsskoðun þess. Jafnframt var ákveðið að fasteignin að Borgarbraut 14 yrði sett í söluferli. Meirihluti starfsemi ráðhússins við Borgarbraut 14 fluttist í byrjun árs að Bjarnarbraut 8 þegar ástandsskoðun á fasteigninni hafði leitt í ljós að mikill rakavandi væri í húsnæðinu. Í kjölfarið var farið í að kostnaðarmeta lagfæringar á Borgarbraut 14 og leiddi sú vinna í ljós að það yrði dýrara fyrir sveitarfélagið að ráðast í endurbætur heldur en að fjárfesta í nýju húsnæði. Því var ákveðið að kaupa húsið við Digranesgötu 2 eins og nú hefur verið staðfest.

Líkar þetta

Fleiri fréttir