Systur frá Ásgarði komu uppáklæddar á hátíðina. Þær höfðu meiri áhuga á að byggja úr hnefataflmönnum, en að læra reglurnar.

Fjör á fjölskyldudögum á Eiríksstöðum

Að Eiríksstöðum í Haukadal var hátíð um helgina; Fjölskyldudagar þar sem boðið var upp á fræðslu um landnámsöldina og gestir tóku þátt í allskyns fornri iðju. Um 350 manns sóttu Eiríksstaði heim í blíðskaparveðri. Gestir slökuðu á í sólinni og margir dvöldu daglangt, enda margt spennandi að gerast.

Byrjað var með sögustund fyrir yngstu börnin. Nokkrar ungar Dalakonur sýndu glímu og leiðbeindu síðan gestum sem vildu reyna með sér í þessari fornu íþrótt, en Dalirnir státa af miklu og virku starfi í íþróttinni. Meðal sýnenda voru glímudrottningarnar Jóhanna Vigdís Pálmadóttir og Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir. Þær leiðbeindu síðan þeim sem vildu kynna sér íþróttina.

Börn og fullorðnir fengu að prófa ýmislegt, svo sem að tálga trénagla, gera sér skart úr glerperlum, baka flatbrauð yfir eldi og æfa sig að kasta spjóti. Stórt hnefatafl á svæðinu var óspart notað, örstutt Íslandsmót var haldið, kennsla fór fram og var yngsta fólkið áhugasamt um að leika sér með taflmennina. Endaði hátíðin svo með tískusýningu þar sem sýnd var „nýjasta“ tíska landnámsaldar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir