Það var hart barist í Þaraboltanum í fyrra. Ljósm. kgk

Reykhóladagar verða um helgina

Hinir árlegu Reykhóladagar verða haldnir hátíðlegir dagana 23. til 25. júlí næstkomandi. Á föstudeginum verður margt skemmtilegt á dagskrá og þar má til dæmis nefna brúðuleiksýninguna Dimmalimm, Reykhóladagahlaupið við Bjarkalund, Bjórmíluna sem er 4×400 metra hlaup með fjórum „drykkjarstöðvum“, töframaðurinn Jón Víðis verður með töfrasýningu í Reykhólabúðinni og kvöldið endar svo með BarSvari á Báta- og hlunnindasýningunni.

Á laugardeginum verður boðið upp á ýmislegt eins og töfraskóla fyrir börnin, veltibílinn, dráttarvélarall ásamt læðutogi, vöffluhlaðborð og kassabílarall á Hellisbrautinni. Þá fer fram Íslandsmeistaramótið í Þarabolta, kvöldvaka með brekkusöng, hæfileikakeppni og fleiru og þetta endar svo með dansleik með hljómsveitinni SUE.

Á sunnudeginum verður Handverksfélagið Assa með dagskrá í Króksfjarðarnesi.

Frumlegt og fjölbreytt

Skessuhorn heyrði hljóðið í Jóhönnu Ösp Einarsdóttur, tómstundafulltrúa Reykhólahrepps, sem hefur undanfarin ár séð um skipulagningu Reykhóladaga. Hún segir að undirbúningurinn hafi gengið mjög vel og dagskráin í ár sé bæði frumleg og fjölbreytt. Hún nefnir þar sem dæmi bjórmíluna sem er nýtt atriði á Reykhóladögum en þar hlaupa keppendur fjóra 400 metra spretti og þurfa að hella í sig einum 33 cl bjór á hverri stöð. Heimsmetið er 4:33 mínútur og spurning hvort það verði slegið um helgina. Þá nefnir hún einnig Þaraboltann þar sem plast er sett undir völl með þang og þara ofan á, bleytt vel í og spilaður fótbolti af fullum krafti og með stuðningi margra áhorfenda.

Undirbúningurinn hófst í byrjun júní og segir Jóhanna að þau séu mjög bjartsýn fyrir helginni og eigi von á fjölda manns; heimamönnum, brottfluttum og nærsveitungum. Hátíðin byrjaði sem Reykhóladagurinn en breyttist síðan í Reykhóladaga, byrjuðu hlunninda- og villibráðarhátíð sem varð svo að uppskeruhátíð Reykhólahrepps og voru þá í ágúst en hafa verið með svipuðu sniði síðustu ár. Jóhanna segir að lokum að Reykhóladagar myndu ekki fara fram nema með hjálp margra einstaklinga og með styrkjum frá fyrirtækjum og stofnunum og vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lagt hafa hönd á plóginn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir