Ástráður Eysteinsson.

Lífríki spora – Um fótfestu í ljóðum Þorsteins frá Hamri

Laugardaginn 24. júlí kl. 13 flytur Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, fyrirlestur í Bókhlöðu Snorrastofu um ljóðskáldið Þorstein frá Hamri. Ljóð hans, Draumljóð, verður einnig viðfangsefni tónskáldins Ingibjargar Ýrar Skarphéðinsdóttur á sjálfri tónlistarhátínni í Reykholtskirkju sunnudaginn 25. júlí. Fyrirlesturinn er öllum opinn og er aðgangur ókeypis.

Þorsteinn frá Hamri er meðal fremstu nútímaskálda íslenskrar tungu. Þegar hann steig fram á bókmenntasviðið fyrir ríflega sex áratugum, þótti sumum ungskáldið úr uppsveitum Borgarfjarðar að vísu nokkuð fornt í lund, komið til borgarinnar með sjónarsvið og orðlistararf fyrri alda. Svar Þorsteins birtist í heiti annarrar ljóðabókar hans: Tannfé handa nýjum heimi (1960), en það má teljast vísun til bernskubrölts nútímans, sem skáldið á brýnt erindi við. Hann undirstrikaði það með heiti síðustu bókarinnar sem hann gekk frá. Hún heitir Núna (2016).

Þorsteinn frá Hamri sækir umboð sitt og viðfangsefni í senn til sögunnar og samtímans. Æviskeið skáldsins er samofið hvoru tveggja á hugkvæman og djarfan hátt í ljóðum þar sem mælandi finnur sér stað er lesanda býðst að deila með honum.

Ástráður Eysteinsson er uppvaxinn í Borgarnesi, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð (1976) og BA-prófi í þýsku og ensku við Háskóla Íslands (1979). Hann stundaði síðan framhaldsnám í bókmenntafræði og þýðingafræði við háskóla í Englandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum, þar sem hann lauk doktorsprófi við University of Iowa 1987. Kennsluferill hans hófst í Breiðholtsskóla 1977 og meðfram háskólanámi kenndi hann við grunnskóla, menntaskóla og háskóla. Hann hóf að kenna við Háskóla Íslands 1987 og hefur verið þar prófessor í almennri bókmenntafræði frá 1994. Ástráður hefur sinnt fræðaverkum sínum – fræðilegri ritstjórn, samningu nokkurra bóka og fjölda greina – jöfnum höndum á íslensku og ensku. Hann hefur fengist við stefnur og strauma í nútímabókmenntum Vesturlanda, með áherslu á bókmenntir innan málsvæða ensku, þýsku og íslensku. Rannsóknir Ástráðs hafa einnig beinst að þýðingum og hann var brautryðjandi í þýðingafræði í íslensku samhengi, auk þess sem hann hefur verið virkur bókmenntaþýðandi. Hann hefur einnig sinnt margskonar stjórnunarstörfum við Háskóla Íslands og var m.a. forseti Hugvísindasviðs skólans frá 2008 til 2015.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir