Svæðið milli efra og neðra Jörundarholts þar sem nýr íbúðakjarni fyrir fatlaða á að rísa. Ljósm. frg

Akraneskaupstaður auglýsir breytingu aðalskipulags Jörundarholts og golfvallar

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar auglýsir í Skessuhorni sem kom út í dag tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Akraness. Annars vegar er um að ræða áformaða breytingu þannig að íbúðasvæði ÍB10, sem er í Jörundarholti, verði stækkað vegna áforma um byggingu íbúðakjarna fyrir fatlað fólk.

Í skipulagslýsingunni segir að breytingin sé liður í því að bæta húsnæðisöryggi fatlaðs fólks og auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Íbúðir fyrir fatlað fólk skulu vera í almennri íbúðabyggð. Það er einn af grunnþáttum þess að stuðla að fullri aðlögun og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu og bera virðing fyrir mannlegri reisn. Samkvæmt lýsingunni hafa nokkrir möguleikar á staðsetningu íbúðarkjarna verið skoðaðir af skipulags- og umhverfisráði í samvinnu við velferðarráð og ráðgjafa. Ekki hefur reynst unnt að koma fyrir byggingu og nýrri lóð af þeirri stærð, sem stefnt er að, innan núverandi byggðar með góðu móti nema við Jörundarholt. Leiksvæði og göngustígur verður endurgert með betri aðstöðu til útivistar.

Íbúðakjarnanum er ætlaður staður á svæði á milli efra og neðra Jörundarholts sem í dag er óbyggt en nýtt af íbúum undir útivist, knattspyrnuiðkun og fleira. Þar eru grasflatir, lítið leiksvæði, spennistöð og göngustígur. Í skipulagslýsingunni segir að svæðið sem um ræðir sé ekki nýtt á neinn hátt og að þar geti myndast vindstrengir. Jafnframt segir að stefnt sé að því að nýbygging verði á einni hæð og falli vel að núverandi byggð. Bygging og umhverfisfrágangur við hana muni skýla opna svæðinu sunnan hennar.

Hins vegar auglýsir breytingu á Aðalskipulagi Akraness 2005-2017 þannig að gefinn verði kostur á byggingu hótels innan marka golfvallarins í Leyni. Breytingin er gerð að ósk Golfklúbbsins Leynis í samráði við Akraneskaupstað. Markmið með byggingu hótels á svæðinu er að stuðla að eflingu og uppbyggingu golfvallarins í Leyni og styðja við og efla almenna ferðaþjónustu á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir