Grasasnar. F.v. Sigurþór, Sigurður, Halldór Hólm og Steinar Berg.

Grasasnar gefa út plötu tileinkaða John Prine

Vestlenska hljómsveitin Grasasnar lauk nýverið upptökum á nýrri plötu, sem heitir Prine, og hefur að geyma lög bandaríska lagasmiðsins og flytjandans John Prine. Meðlimir Grasasna tóku fyrir löngu ástfóstri við John Prine. En vegur hans sem lagasmiðs og flytjanda og áhrifavalds í bandarískri tónlist óx gríðarlega mikið hin síðustu ár. Upptökur á nýju plötunni stóðu yfir í nokkur ár og reynt var að vanda til verka auk þess sem metnaður og ástríða fyrir verkefninu voru í hávegum.

Grasasnar vinnur að metnaði að því að skapa sér sérstöðu og það eru ekki margir slíkir tónlistarhópar sem hafa haldið jafn lengi út. Hljómsveitina skipa bræðurnir Sigurþór Kristjánsson (trommur og söngur) og Halldór Hólm Kristjánsson (bassi, söngur), Steinar Berg (söngur, kassagítar) og Sigurður Bachmann, (raf- og kassagítar). Til að fagna væntanlegri útgáfu plötunnar á síðasta ári höfðu Grasasnar tryggt sér miða á tónleika John Prine sem fara áttu fram í Royal Festival Hall í London 25. febrúar árið 2020. Voru hljómsveitarmeðlimir ferðbúnir að leggja af stað út á flugvöll þegar tónleikunum var aflýst. Prine hafði nokkru áður dottið á sviðinu og slasast á mjöðm. Tónlistarmaðurinn var þá fluttur á sjúkrahús í heimaborg sinni Nashville, smitaðist þar af Covid-19 og lést 7. apríl sama ár. Þannig enduðu tónleikamiðarnir ónotaðir, en rammaðir upp á vegg.

Vegna langs framleiðslutíma vínyl platna kemur íslensk útgáfa plötunnar ekki formlega út í föstu formi fyrr en í nóvember á þessu ári. Lag af plötunni kom hins vegar út í þessari viku á Spotify sem smáskífa, bæði í enskri og íslenskri útgáfu; Spanish Pipedream – Sunnlenskir draumórar. Einnig kom þar út EP, sem inniheldur þrjú lög á ensku og íslensku sem ekki verða á plötunni. Þá er nú farið í loftið myndband þar sem Grasasnar flytja Sunnlenska draumóra.+

Hér má sjá upptöku af laginu Sunnlenskir draumórar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir