Haraldur Benediktsson bóndi og alþingismaður er þessa dagana í heyskap á búi sínu á Vestri-Reyni. Ljósm. mm.

Haraldur slær til og þiggur annað sætið

Eins og fram kom í frétt hér á vef Skessuhorns í morgun hóf Haraldur Benediktsson bóndi á Vestra-Reyni við Akrafjall slátt á miðvikudaginn. Töðunni af heimatúninu var svo pakkað í plast síðdegis í gær og hélt hann í kjölfarið áfram með sláttinn. En Haraldur slær til á öðrum vettvangi einnig. Í samtali við blaðamann Skessuhorns síðdegis í gær kom fram hjá honum að hann hafi tekið ákvörðun um að þiggja 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Eins og kunnugt er sóttist hann eftir oddvitasæti listans en laut í gras í þeirri prófkjörsbaráttu við Þórdísi Kolbrúnu R Gylfadóttur ráðherra.

„Í ljósi þess að ég stefndi á fyrsta sætið í prófkjörinu var ég ekki sannfærður um hvort ég tæki annað sætið, gæfi nýjum oddvita sviðið óskert. Vildi í það minnsta hugsa minn gang og heyra hljóðið í flokksforystunni og baklandi mínu. Ég hef á síðustu dögum meðtekið gríðarlegan fjölda áskorana um að þiggja annað sætið á listanum. Þar eiga í hlut bæði dyggir stuðningsmenn mínir í gegnum tíðina og einnig óflokksbundið fólk sem annt er um stöðu landsbyggðarinnar. Ég get því ekki litið framhjá þeirri staðreynd að þrátt fyrir allt virðist ennþá vera eftirspurn eftir störfum mínum á þingi. Ég get því upplýst að ég lýsi mig tilbúinn í framboðsslaginn,“ segir Haraldur bóndi og þingmaður í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir