Tunnulestin á fullri ferð á Dönskum dögum sumarið 2019. Ljósm. úr safni/ sá

Jónsmessuhátíð á Dönskum dögum hefst í dag

Bæjarhátíðin Jónsmessuhátíð á Dönskum dögum í Stykkishólmi hefst í dag, miðvikudaginn 23. júní, og verður fram á laugardag. Hátíðin er ein elsta bæjarhátíð landsins en hún var haldin árlega í ágústmánuði frá árinu 1994-2019. Árið 2019 var tekin ákvörðun um að halda hátíðina annað hvert ár á móti Norðurljósahátíðinni og jafnframt að færa hátíðina fram í júní, í kringum Jónsmessu. Að sögn Hjördísar Pálsdóttur, safnstjóra Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla, verður nóg um að vera í Hólminum um helgina. „Við fórum aðeins seinna af stað að skipuleggja hátíðina en áður því það var mikil óvissa vegna covid,“ segir Hjördís og bætir við að þrátt fyrir það náðist að setja saman skemmtilega dagskrá. „Þegar við sáum að samkomutakmarkanir voru að rýmka og bólusetning gekk vel fórum við á fullt. Við erum ótrúlega glöð að geta haldið þessa hátíð og sett saman fjölbreytta dagskrá,“ segir Hjördís.

Hátíðin hefst í dag með barnaleiksýningu í Norska húsinu kl. 17:00. Á morgun, fimmtudag, verður svo Jónsmessuganga í Drápuhlíð. Þá verður boðið upp á gufu og sjóbað í Móvík og kvöldróður á kajak. Leikhópurinn Lotta verður í Hólmgarði kl. 18:00 á föstudaginn og eftir það verða garðpartý víðs vegar um Stykkishólm. Þá verða barir opnir og tilvalið að skella sér í pöbbarölt um bæinn. Á laugardeginum er áhersla lögð á barnadagskrá fram eftir degi. Farið verður í fjöruferð í Móvík kl. 11:00. Á milli kl. 13:00-14:00 verður dorgveiðikeppni fyrir krakka á öllum aldri niðri á bryggju. Þá verður boðið upp á heitt kakó í Skógræktinni, náttúrujóga í Súgandisey og náttúrusmiðju fyrir börnin í Norska húsinu. Hröðustu hlauparar í Hólminum, sem náð hafa 20 ára aldri, geta svo keppt í bjórmílu. Keppni hefst við Skúrinn þar sem keppendur drekka einn bjór og halda svo af stað í einnar mílu hlaup. Stoppa þarf við þrjár stöðvar á leiðinni og klára einn bjór á hverri stöð. Um kvöldið verður Regína Ósk í Viðvík og Fjör á Skipper frá kl. 22:00 og þar til Víðir segir að fólk þurfi að halda heim.

Líkar þetta

Fleiri fréttir