Froðugamanið í Þórðargötu hefur alltaf verið vinsælt. Stefnt er að því að hafa froðugaman seinna í sumar en Brákarhátíð verður með breyttu sniði í ár. Ljósm. Hafþór Ingi.

Brákarhátíð með breyttu sniði í ár

Ákveðið hefur verið að halda Brákarhátíð, bæjarhátíðina í Borgarnesi, með öðruvísi sniði í ár. Hollvinasamtök Borgarness hafa séð um skipulagningu hátíðarinnar síðustu ár og ákváðu samtökin að í ár yrðu minni viðburðir skipulagðir yfir sumartímann undir yfirskriftinni Viðburðardagatal Brákarhátíðar 2021. Er þetta gert í stað einnar stórrar hátíðar. Helsta ástæða þessarar breytingar er vegna Covid-19 en einnig vegna umræðu sem hafa átt sér stað síðustu ár og hefur snúist um það hvort eigi að halda Brákarhátíðina á hverju ári eða annað hvert ár. „Það eru skiptar skoðanir um þetta. Við í hollvinasamtökunum fórum fram og til baka með þetta þegar við vorum að huga að skipulagningu hátíðarinnar í vetur. Við vissum ekki hvernig tilslakanir myndu þróast þegar leið á vorið og svo sumarið. Að auki verða Hinsegin dagar haldnir í Borgarnesi helgina 10.-11. júlí svo við ákváðum að hafa þetta svona í ár og sjá hvernig það kemur út. Ef það gengur ekki upp, þá bara vitum við það og höldum heljarinnar Brákarhátíð að ári,“ segir Hafþór Ingi Gunnarsson formaður Hollvinasamtaka Borgarness í samtali við Skessuhorn.

Minni viðburðir yfir sumartímann

Eins og fyrr segir þá verða minni viðburðir yfir sumartímann í stað einnar hátíðar. Fyrst í maí var viðburðurinn Brák & Michelle þar sem gestir voru boðnir velkomnir á vinnusvæði Michelle listakonu í Borgarnesi, til að teikna og mála það sem þeim datt í hug tengt Þorgerði Brák, kvenskörungi úr Egils sögu, sem hátíðin er einmitt nefnd eftir.

Nú á laugardag verður sérstakur Brákardagur í Borgarnesi. Þá verður ýmislegt í boði. Skemmtihlaup verður frá Granastöðum yfir í Brákarey. Í Brákarey verður svo hægt að fara í öndun og lendingu með Sigthoru Odins og dögurður verður í boði kvenfélagsins í húsi Björgunarsveitarinnar Brákar. Útimarkaður verður í Englendingavík yfir daginn og loks verður Gísli Einarsson, fjölmiðlamaður og skemmtikraftur, með Borgarnes pöbb kviss á Bara Ölstofu Lýðveldisins um kvöldið. Að auki verða valdir veitingastaðir í bænum með sérstakt tilboð í gangi yfir daginn og söfn verða opin. Frekari upplýsingar um Brákardaginn og alla aðra viðburði sem fara fram í sumar má nálgast á Facebook síðu Brákarhátíðar. Það sem er á döfinni er meðal annars Bjargslandsdagur 3. júlí og Bátadagur þann 15. ágúst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir