Loftmynd af Fjárborg 10d þar sem má sjá gámana tvo. Ljósm. af.

Úrskurður um stöðuleyfi í Fjárborg

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tók fyrir á fundi sínum 25. maí síðastliðinn kæru sem snerist um álagningu stöðuleyfisgjalda vegna tveggja gáma við gripahús á lóðinni Fjárborg 10d í Snæfellsbæ. Eigandi lóðarinnar kærði álagninguna að upphæð 146.000 krónur. Í málavöxtum segir að eigandi lóðarinnar hafi sótt um stöðuleyfi fyrir gámana 2. júní 2020 og var umsókn samþykkt tímabundið fram að áramótum. Var honum þá gert að greiða 72.000 krónur vegna leyfisins. Í janúar sótti eigandi lóðarinnar aftur um stöðuleyfi og var umsóknin samþykkt og lögð á hann stöðuleyfisgjöld að upphæð 146.000 krónur.

Eiganda lóðarinnar þótti gjaldið heldur hátt fyrir einungis tvo gáma og benti hann á að ekki komi fram í stöðuleyfinu hversu lengi hann mætti hafa gámana á lóðinni. Þá benti hann einnig á að lóðin væri skráð sem iðnaðar- og athafnalóð. Þá vísaði Snæfellsbær til þess að á umsóknareyðublaðinu um stöðuleyfi komi fram að slík leyfi séu mest veitt til tólf mánaða í senn, nema skipulagsákvæði mæli fyrir um annað. Einnig er þar vísað í lög um mannvirki þar sem fram kemur að sveitarstjórn sé heimilt að setja gjaldskrá fyrir þjónustu og verkefni byggingafulltrúa. Í niðurstöðu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að gjaldið sem lagt var á eiganda lóðarinnar uppfylli ekki þau skilyrði að taka mið af kostnaði við þá þjónustu sem um ræðir. „Þá verður gjaldtökuheimild nefndrar lagagreinar ekki túlkuð á þann veg að fjárhæð gjalds vegna útgáfu stöðuleyfis og tilheyrandi eftirlits ráðist fortakslaust af stærð eða fjölda lausafjármuna sem leyfið tekur til. Liggja ekki fyrir í málinu nein þau rök eða gögn sem rennt geta stoðum undir nauðsyn þess að leggja á tvöfalt stöðuleyfisgjald þótt um tvo gáma hafi verið að ræða,“ segir í úrskurðinum. Þá er einnig tekið fram að gjöldin voru lögð á þann 5. febrúar síðastliðinn en gjaldskráin sem farið var eftir tók ekki lögformlega gildi fyrr en 17. mars síðastliðinn. Var því álagning stöðuleyfisgjalds felld úr gildi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir