Fylkismenn fagna marki í leiknum. Ljósm. Vísir/ Hulda Margrét.

Skagamenn töpuðu gegn Fylki

Skagamenn léku í gær gegn liði Fylkis í Árbænum og töpuðu fjórða leiknum í röð í Pepsi Max deild karla. Skagamenn byrjuðu þó vel í leiknum því strax á fjórðu mínútu skoraði Gísli Laxdal Unnarsson eftir að hafa fylgt eftir stangarskoti Hákons Inga Jónssonar. Um miðjan fyrri hálfleik jafnaði Helgi Valur Daníelsson metin fyrir Fylkismenn með skoti úr teignum og staðan jöfn í hálfleik. 1-1.

Fylkir komst svo yfir eftir sjö mínútna leik í seinni hálfleik með marki Óskars Borgþórssonar og Dagur Dan Þórhallsson skoraði svo aftur stuttu seinna úr aukaspyrnu í gegnum klof Dino Hodzic, markmanns Skagamanna. Lítið gerðist í leiknum eftir þetta og sigur heimamanna fyllilega verðskuldaður.

Næsti leikur Skagamanna í Pepsi Max deildinni er gegn Keflavík á heimavelli mánudaginn 28. júní en í millitíðinni leikur liðið gegn Fram í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins næsta miðvikudag á Akranesvelli og hefst klukkan 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir