Ísbúð Huppu verður opnuð í Borgarnesi

Ísbúð Huppu verður opnuð í Borgarnesi í júlí. Þetta er sjöunda Huppu ísbúðin á landinu en fyrsta búðin var opnuð á Selfossi árið 2013. Ísbúðin verður staðsett inn af Food Station við Digranesgötu 4. „Margrét kaupfélagsstjóri hafði samband við okkur með þessa skemmtilegu pælingu, að við myndum opna þarna ísbúð. Okkur þótti þetta frábær hugmynd. Þetta er góð staðsetning, þarna er mikil umferð fram hjá og upplagt að stoppa þegar maður er á ferðinni,“ segir Telma Finnsdóttir, einn af eigendum Ísbúðar Huppu.

Aðspurð segir Telma að ekki sé búið að ákveða nákvæmlega hvaða dag búðin verður opnuð en stefnt er að því að opna um miðjan júlí. „Við erum bara nýlega byrjuð á framkvæmdum og erum um þessar mundir á fullu að auglýsa eftir starfsfólki. Það hafa hrúgast inn umsóknir og við hvetjum endilega stráka og stelpur til að sækja um hjá okkur,“ segir Telma. „Við erum ótrúlega spennt að koma í Borgarnes og við höfum ekki heyrt annað en það sé mikil spenna fyrir þessari opnun, sem er mjög ánægjulegt,“ segir Telma og bætir við að hægt sé að sækja um starf hjá Ísbúð Huppu í Borgarnesi í netfangið umsoknborgarnes@gmail.com.

Líkar þetta

Fleiri fréttir