Myndin var tekin morguninn eftir óhappið, 6. janúar. Bíll við Mánabraut alþakinn sementi. Ljósm. mm.

Allt að fimm tonnum af sementi var dælt yfir byggðina

Verkfræðistofan EFLA hefur skilað af sér minnisblaði með niðurstöðum mælinga á sementlosun sem varð fyrir mistök við Sementsverksmiðjuna á Akranesi 5. janúar síðastliðinn. Við dælingu úr sementsflutningaskipi slapp töluvert magn sement út í loftið og lagðist yfir nærliggjandi götur, hús og bíla. Í framhaldinu hófst umfangsmikið hreinsunarstarf. Í minnisblaði EFLU birtast mælingar úr fallrykssöfnurum sem settir voru upp í kjölfar óhappsins og hafa mælt þróun fallryks frá því í febrúar. „Mælingar EFLU eru hluti af aðgerðum Sementsverksmiðjunnar við að leggja mat á umfang og tjón sem varð af völdum óhappsins og vinnu við að tryggja að mistök af þessu tagi endurtaki sig ekki. Sementsverksmiðjan vinnur einnig að úrbótaskýrslu sem gefin verður út síðar á þessu ári þegar nauðsynlegar forsendur liggja fyrir,“ segir í tilkynningu frá Sementsverksmiðjunni.

Meira en upphaflega var áætlað

„Samkvæmt mati EFLU má áætla að allt að 4,8 tonn af sementsryki hafi borist í umhverfi verksmiðjunnar við óhappið. Upphaflegt mat Sementsverksmiðjunnar á vettvangi sem metið var út frá yfirborði sementssílósins sem um ræðir var að allt að tvö tonn af sementsryki hefðu sloppið út í umhverfi verksmiðjunnar. Niðurstöður EFLU byggja ekki á beinum mælingum heldur sjónrænu mati sem gert var með aðstoð ljósmynda og frásögnum vitna. Segir í niðurstöðum að nokkur óvissa ríki vegna þessa um nákvæmt magn.“

Þá segir í tilkynningu frá fyrirtækinu að til að meta áframhaldandi rykmengun af sementi í umhverfinu voru 8. febrúar síðastliðinn settur upp fallrykssafnari til mælinga á sementsryki í umhverfinu. Safnari er staðsettur við Suðurgötu norðan við sílóin. „Sýnin hafa verið send í efnagreiningu til Efnagreiningar ehf. þar sem magn fallryks er mælt og reynt að meta hlutfall sements af heildarryki út frá efnasametningu ryksins. Nú þegar hafa verið tekin sýni yfir tvö tímabil. „Á fyrra tímabilinu sem náði fram til 10. mars sl. mældist fallryk 13,3 g/m² sem er yfir mörkum en styrkur fallryks sem ekki er vatnsleysanlegt má ekki mælast yfir 10 g/m² miðað við mánaðarsöfnunartíma. Hlutfall sements í fallrykinu mælist 10% en það er metið út frá efnagreiningu á einstökum frumefnum og borið saman við þekkta samsetningu á hreinu sementi. Aðferðin gefur ekki nákvæma niðurstöðu heldur er hér um að ræða ákveðna nálgun og er útreiknað gildi algjört hámarkshlutfall af sementi sem getur verið í rykinu og gerir EFLA því ráð fyrir að raunverulegt magn sé eitthvað minna. Á síðara tímabilinu, sem náði frá 10. mars til 21. apríl mældist fallryk 9,5 g/m² eða rétt undir áður nefndum mörkum og sementshlutfall 8%.“

Í minnisblaði EFLU er sérstaklega tekið fram að hafa beri í huga að meðan á sýnatöku stóð voru í gangi framkvæmdir á svæðinu við Faxabraut þar sem verið var að brjóta mikið magn steypu með tilheyrandi rykmyndun. „Gera megi ráð fyrir að ryk frá þessum framkvæmdum sé hluti af því sementsryki sem mældist. Áætlað sementsmagn frá steypurykinu liggur ekki fyrir. Bæði magn ryks og hlutfall sements minnkar í seinna sýninu.” Loks segir að til standi að mælingum verði haldið áfram fram eftir ári eða á meðan áhrifa gætir.

Ráðstafanir gerðar

„Allt frá því að óhappið varð hefur Sementsverksmiðjan lagt mikla áherslu á að tryggja að óhapp af þessu tagi endurtaki sig ekki, auk þess að eiga í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld, tryggingafélag og aðra hlutaðeigandi aðila. Sementsverksmiðjan hefur síðustu mánuði unnið eftir aðgerðaáætlun sem ákveðin var á öryggisfundi sem haldinn var 15. janúar sl. í kjölfar óhappsins. Verksmiðjan hefur meðal annars lokið uppsetningu á tveimur nýjum myndavélum í tengibyggingu við sementsgeyma, ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja að lok sementssílóa haldist á við yfirþrýsting, samskiptatæki og símtenging milli skips og vaktar hafa verið yfirfarin og bætt. Til stendur að setja upp hljóðmerkjabúnað til viðbótar við aðvörunarljós á hæðarvaka. Auk þessa hefur viðbragðsáætlun verksmiðjunnar verið endurskoðuð. Fyrirtækið og forsvarsmenn þess munu áfram leggja áherslu á að starfa í góðri sátt við umhverfi sitt og samfélag, nær og fjær. Fyrirhugað er að Sementsverksmiðjan sendi frá sér úrbótaskýrslu síðar á þessu ári þegar úrbótum hefur verið lokið og mat á heildarumfangi atviksins liggur fyrir,“ segir í tilkynningunni sem Gunnar H Sigurðsson framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar ritar undir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir