Haraldur Benediktsson. Ljósm. frá í febrúar síðastliðnum.

Haraldur segir næsta skref í höndum flokksforystunnar

Prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi lauk í gær og lágu úrslit fyrir í nótt. Sitjandi þingmenn kjördæmisins gáfu báðir kost á sér til forystu. Í fyrsta sæti í prófkjörinu varð Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra. Hlaut hún 1.347 atkvæði í 1. sætið. Annað sæti listans kom í hlut Haraldur Benediktsson alþingismanns og bónda sem hlaut 1.356 atkvæði í 1.-2. sætið. Í þriðja sæti varð Teitur Björn Einarsson sem hlaut 1.378 atkvæði í 1.-3. sætið og Sigríður Elín Sigurðardóttir skipar fjórða sætið, hlaut 879 atkvæði í 1.-4. sæti.

Haraldur Benediktsson sagði í viðtali við bb.is síðastliðinn þriðjudag að ekki væri sjálfgefið að hann tæki sæti á lista, færu kosningar þannig að hann hreppti ekki fyrsta sætið eins og hann stefndi að: „Ég hef setið sem oddviti listans og gegnt stöðu fyrsta þingmanns kjördæmisins. Ég hef náð að stilla saman strengi allra þingmanna kjördæmisins til góðra verka. Ég er reiðubúinn að gera það áfram. Feli flokksmenn öðrum það hlutverk er það skýr niðurstaða. Það getur ekki verið gott fyrir nýjan oddvita að hafa þann gamla í aftursætinu.“

Í ljósi þessara orða heyrði blaðamaður Skessuhorns í Haraldi í morgun, eftir að hann var búinn að ljúka morgunmjöltum á búi sínu, og hleypa kúnum út. „Ég stend við þau orð sem ég lét hafa eftir mér á fréttavef bb.is í síðustu viku. Ég hef lofað forystu flokksins að bíða með nokkrar yfirlýsingar um næstu skref þangað til ég hef rætt við forystuna og kjörnefndina. Um niðurstöðu prófkjörsins er það að segja að ég stefndi að fyrsta sæti á lista og því eru úrslitin ákveðin vonbrigði. Miðað við söfnun nýrra félaga í flokkinn á liðnum dögum og vikum átti ég von á meiri kjörsókn en raunin varð. Ég lít á niðurstöðuna sem varnarsigur miðað við það sem á hefur gengið undanfarna daga. Það hafa þung orð verið látin falla, sem jafnvel mætti kalla aðför. Prófkjörið kallaði fram ljótleika. Í þessari barátta var jafnvel farið að notast við orðfar sem ekki hefur sést í prófkjörum hér á landi fyrr. Einhvers konar hatursorðræða og ég jafnvel sagður hata konur! Það vita það held ég allir að enginn fótur er fyrir slíku,“ sagði Haraldur.

„Ég óska Þórdísi Kolbrúnu innilega til hamingju með sigurinn, gerði það persónulega í nótt þegar úrslitin lágu fyrir. Auðvitað vissi ég fyrirfram að það yrði bratt fyrir mig að sækjast eftir forystusæti listans í baráttunni við varaformann flokksins. Hins vegar ef maður rýnir í tölurnar og veit hvernig hugur rótgróins flokksfólks liggur, met ég stöðu mína sterka í kjördæminu, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. Ég er hins vegar maður orða minna. Ég sóttist eftir forystusæti og fékk ekki. Ég lít á það sem varnarsigur að hafa hreppt annað sætið en ítreka miðað við orð mín í síðustu viku að það er forystu flokksins og kjörnefndar að ákveða hvort sóst verður eftir kröftum mínum áfram,“ sagði Haraldur í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir