Hallgrímskirkja í Saurbæ.

Sumartónleikar í Hallgrímskirkju á sunnudaginn

Sumartónleikar í Hallgrímskirkju í Saurbæ í Hvalfirði hefjast á sunnudaginn, 20. júní. Er þetta þriðja starfsár sumartónleikanna en grunnhugmynd þeirra er að viðhalda staðnum sem menningarstað. „Alls verða níu tónleikar í sumar hvern sunnudag kl. 16 frá 20. júní til 15. ágúst. Allur ágóði rennur til styrktar staðnum sem með tímanum mun vonandi verða aðdráttarafl fyrir landsmenn sem og erlenda ferðamenn,“ segir í tilkynningu. Ágóði tónleikahaldsins hefur meðal annars verið notaður í gott hljóðkerfi í húsinu og eru framkvæmdir við kirkjuna hafnar. Verið er að mála hana að utan og viðgerðir á gluggum eru á dagskrá. Þá eru framundan fleiri framkvæmdir til að varðveita þennan merka og sögulega stað.

„Hallgrímskirkja í Saurbæ er sögulega og menningarlega mikilvægur staður fyrir Íslendinga en þarna bjó Hallgrímur Pétursson og samdi Passíusálmana sem eru dýrgripir í menningarsögu Íslands. Það er því dýrmætt að halda þessum stað lifandi og fjölbreyttum en starfsemi hefur verið í lágmarki undanfarin ár. Í kirkjunni er fallegt orgel og flygill en húsið hefur mjög fallegan hljómburð og ber vel ýmsa gerð af tónlist,“ segir í tilkynningunni. Á fyrstu tónleikum sumarsins flytja Diddú og drengirnir sönglög úr ýmsum áttum. En drengirnir eru Sigurður Ingvi Snorrason og Kjartan Óskarsson á klarínettur, Frank Hammarin og Þorkell Jóelsson á horn, Brjánn Ingason og Snorri Heimisson á fagott.

Dagskrá sumarsins:

20. júní kl. 16 – Diddú og drengirnir – Sönglög úr ýmsum áttum

27. júní kl. 16 – Hjörtur Ingvi Jóhannsson – Spuni og frumsamin píanótónlist

4. júlí kl. 16 – Amasia tríó – Þjóðlagakennd tónlist frá ýmsum löndum

11. júlí kl. 16 – Auður Gunnarsdóttir og Eva Þyri Hilmarsdóttir – Kvennakraftur í ljóðum og lögum

18. júlí kl. 16 – Skuggamyndir – Dulúðug og tilfinningarík Balkantónlist

25. júlí kl. 16 – Andrew Yang píanóleikari – Píanóverk eftir Brahms og Liszt

1. ágúst kl. 16 – Tónlistarhópurinn Umbra  – Íslensk þjóðlög og evrópsk miðaldatónlist

8. ágúst kl. 16 – Eyrnakonfekt – sönglög eftir Þórunni Guðmundsdóttur

15. ágúst kl. 16 – Aulos flautuhópur – Perlur Japans og Íslands

Allir velkomnir

Aðgangseyrir er 2.500 krónur og eru allir velkomnir. Einnig er hægt að styrkja málefnið með að leggja inn á söfnunarreikning: 0552-14-100901 kt 590169-2269. Á tónleikadag bjóða veitingastaðir í nágrenninu ýmis tilboð; Hótel Glymur, Hótel Laxárbakki, Bjarteyjarsandur og Hernámssetrið.

Tónleikaröðin er styrkt af Tónlistarsjóði Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Uppbyggingarsjóði Vesturlands SSV, Héraðssjóði vesturlandsprófastdæmis, Hvalfjarðarsveit, Hótel Glym og Garða- og Saurbæjarprestakalli. Nánari upplýsingar um tónleikana er hægt að finna á facebook.com/saurbaer

Líkar þetta

Fleiri fréttir