Það gengur ekki vel hjá Jóa Kalla og hans mönnum þessa dagana. Ljósm. Bára/Vísir

Skagamenn í botnsætinu

Skagamenn léku gegn liði KA frá Akureyri á Akranesvelli á miðvikudagskvöldið og urðu að sætta sig við sitt fimmta tap í átta leikjum í sumar í Pepsi Max deild karla. KA menn byrjuðu leikinn vel og komust strax yfir á elleftu mínútu þegar Dusan Brkovic fylgdi vel á eftir skoti Nökkva Þeys Þórissonar. Skagamenn náðu aðeins að vinna sig inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleikinn en sköpuðu sér engin hættuleg færi og staðan því 0-1 fyrir gestina í hálfleik.

Seinni hálfleikur var ekki ólíkur þeim fyrri; KA menn byrjuðu betur og tókst að bæta við marki á 70. mínútu þegar boltinn datt til Ásgeirs Sigurgeirssonar inn í teig Skagamanna. Hann skaut að marki sem fór í varnarmann en Ásgeir fékk boltann aftur og náði að skora fram hjá markmanni ÍA og staðan orðin 0-2. Eftir þetta reyndu Skagamenn að skapa sér færi en þétt vörn KA hélt hreinu. Fimm mínútum fyrir leikslok fékk Óttar Bjarni Guðmundsson, fyrirliði ÍA, beint rautt spjald fyrir ansi glæfralega tæklingu á einn leikmann KA og í kjölfarið fékk liðsstjóri KA einnig að líta rautt spjald.

Sigur norðanmanna staðreynd og Skagamenn sitja því nú í botnsætinu með fimm stig en Jóhannes Karl, þjálfari ÍA, sagði í viðtali eftir leikinn að hann væri mjög ósáttur að tapa þessum leik og það búi mikið meira í liðinu en það sé kominn tími til að þeir fari að sýna það. Skagamenn fá tækifæri til þess strax næsta sunnudag þegar þeir mæta Fylki í Árbænum og hefst leikurinn klukkan 17.

Líkar þetta

Fleiri fréttir