Borgarbyggð sýknuð af kröfum Gunnlaugs fyrrverandi sveitarstjóra

Á miðvikudaginn sýknaði Héraðsdómur Vesturlands Borgarbyggð af kröfum Gunnlaugs A. Júlíussonar, fyrrverandi sveitarstjóra. Gunnlaugur höfðaði mál gegn sveitarfélaginu í apríl á síðasta ári því hann taldi uppsögn sína hafa verið ólögmæta. Gunnlaugur var upphaflega ráðinn sveitarstjóri Borgarbyggðar frá maí 2016 og út það kjörtímabil, eða út júní 2018. Eftir sveitarstjórnarkosningar 2018 samdi sveitarstjórn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna við Gunnlaug um að hann myndi áfram gegna starfinu í fjögur ár til viðbótar.

Í nóvember 2019 var Gunnlaugi sagt upp störfum. Segir hann uppsögnina hafa verið sér íþyngjandi og bakað honum andlegt tjón, rýrt starfsheiður hans og álit annarra á honum auk þess að valda honum mikilli vanlíðan. Uppsögnin hafi strax orðið fréttamatur fjölmiðla og hafi hann orðið fyrir miklum álitshnekki. Krafði hann sveitarfélagið um rúmlega fimmtíu milljónir auk þess sem hann gerði kröfu um launaleiðréttingu, greiðslu orlofs og fjórar milljónir í miskabætur.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að uppsögnin hafi ekki brotið í bága við lög eða samninga. Í dómnum segir önnur viðmið gildi um ráðningu og uppsögn sveitarstjóra en annarra starfsmanna sveitarfélaga þar sem traust þurfi að ríkja milli framkvæmdastjóra og meirihluta sveitarstjórnar á hverjum tíma. Var því sveitarfélagið sýknað af öllum kröfum Gunnlaugs.

Líkar þetta

Fleiri fréttir