Hringleikur ferðast um Vesturland

Sirkushópurinn Hringleikur leggur nú land undir fót og sýnir Allra veðra von utandyra um allt land í sumar. Sýningin var sýnd í Tjarnarbíói í vor og hlaut góðar viðtökur áhorfenda á öllum aldri. Allra veðra von hlaut á dögunum Grímuverðlaunin fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins 2021. Sýningin hér á Vesturlandi verður sýnd á Akranesi, á Varmalandi, Stykkishólmi auk náttúrusýningar á Snæfellsnesi og sirkusnámskeiði fyrir börn á aldrinum 8-16 ára í Frystiklefanum á Rifi.

Allra veðra von er ný-sirkussýning þar sem sirkuslistin er notuð til að skoða tengsl mannsins við veðrið. Tungumál sirkuslistarinnar er myndrænt og hrífandi form sem nær til áhorfanda á breiðum aldri, gjarnan óháð tungumáli. Akróbatík, áhætta, grín og glens, ljóðrænar myndir og loftfimleikar flétta saman sögur af mönnum og veðri.

Mikil gróska er í sirkusstarfi á Íslandi með vaxandi hópi atvinnusirkuslistafólks á landinu. „Okkur langar að kynna fjölbreytni sirkuslistar fyrir fólki um allt land og sérstaklega sýna börnum og ungmennum að það er hægt að vinna sem sirkuslistafólk á Íslandi. Sirkuslistaformið er fjölbreytt og reynir á samhæfingu, samvinnu og sköpun,“ segir Eyrún Ævarsdóttir, einn af höfundum og leikendum Allra veðra von í samtali við Skessuhorn.

Gera má ráð fyrir að hið íslenska ófyrirsjáanlega veðurfar hafi töluverð áhrif á sýninguna: „Við leggjum upp með að sýna í, svo gott sem, hvaða veðri sem er. Til þess er leikurinn er gerður! Sýningin á Akranesi verður frumraun okkar að sýna utandyra og það verður áhugavert að vita hvernig veðrið ætlar að leika við okkur þar,“ segir Eyrún að lokum.

Sýningin er unnin í samstarfi við leikhópinn Miðnætti sem sér um leikstjórn, tónlist, búninga og leikmynd. Miðnætti hefur meðal annars gefið okkur sögurnar um tröllastrákinn Þorra og álfastelpuna Þuru. Sýningarferðin um Vesturland er styrkt af Sóknaráætlun Vesturlands og unnin í samstarfi við Snæfellsbæ, Svæðisgarðinn Snæfellsnes, Frystiklefann á Rifi, Akraneskaupstað, Borgarbyggð og Tjaldsvæðið á Varmalandi.

Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með Hringleik á Facebook og Instagram sem er helsta upplýsingaveitan um sirkusferðalagið.

Sýningaráætlun & Námskeið ALLRA VEÐRA VON:

föstudaginn 18. júní – Akranes

laugardaginn 19. júní – Varmaland

laugardaginn 10. júlí – Stykkishólmur

sunnudaginn 11. júlí – Náttúrusýning á Snæfellsnesi í boði Sóknaráætlunar Vesturlands

Miðasala og nánari upplýsingar á tix.is

Loks verður boðið upp á sirkusnámskeið í Frystiklefanum á Rifi í samstarfi við Snæfellsbæ 12.-13. júlí í Frystiklefanum á Rifi (8-16 ára). Skráning og nánari upplýsingar á tix.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir