Afkoma Norðuráls batnaði á síðasta ári þrátt fyrir áskoranir

Afkoma Norðuráls á Grundartanga batnaði á síðasta ári þrátt fyrir Covid-19 faraldur og lægra álverð. Tap fyrirtækisins árið 2020 nam um 1,2 milljörðum króna, samanborið við 3,9 milljarða króna tap árið á undan.

Tekjur Norðuráls námu 570,8 milljónum dala í fyrra en voru 628,3 milljónir dala árið 2019. „Covid-19 faraldurinn hafði mikil áhrif á heimsmarkaðsverð á áli, líkt og á mörgum öðrum hrávörum. Álverð fór úr 1.772 dölum á tonnið í ársbyrjun niður í 1.457 dali á tonnið í apríl. Meðalverð á áli var 1.702 dalir á tonn í fyrra, samanborið við 1.792 dali árið 2019. Hafði þetta óneitanlega áhrif á afkomu fyrirtækisins, en þrátt fyrir það nam EBITDA ársins 2020 7,6 milljörðum króna, samanborið við 118 milljónir árið 2019. Eiginfjárhlutfall var 63% í lok árs 2020,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Árið 2020 var ár áskorana sem enginn vissi fyrirfram hvernig væri best að takast á við. Álverð sveiflaðist mikið og var meðalverðið töluvert undir verði ársins 2019. Þrátt fyrir þetta hækkaði EBITDA hagnaður umtalsvert frá fyrra ári. Árvekni og dugnaður starfsfólks á tímum Covid-19 skipti þar sköpum, en einnig aukin eftirspurn eftir virðisaukandi framleiðslu. Í fyrra gengum við frá fyrsta stóra samningnum um sölu á Natur-Al áli, sem hefur mun minna kolefnisfótspor en venjulegt ál. Við bindum vonir við að vörur eins og Natur-Al muni ýta undir sérstöðu okkar á markaði og auka framlegð til lengri tíma,“ segir Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls.

Líkar þetta

Fleiri fréttir