Ilmandi nýslegin taðan á heimatúninu á Norður-Reykjum. Ljósm. ks.

Sláttur er hafinn á Norður-Reykjum

Hjónin Bjartmar Hannesson og Kolbrún Sveinsdóttir bændur á Norður-Reykjum í Hálsasveit hófu slátt í dag. Spáð er að hangið gæti þurrt næstu tvo daga og heimatúnið sprottið þokkalega og því sagði Bjartmar í samtali við Skessuhorn að ekki hefði verið eftir neinu að bíða með að athuga hvort tækin væru í lagi. Slógu þau hjón því fjóra hektara heim við bæinn sem þau þurrka og binda í rúllur í tæka tíð fyrir sautjánda júní, því eins og segir í lok þjóðhátíðartexta Bjartmars sjálfs, Hæ, hó, jibbí, jei; er vissara að vera við öllu búinn: „En rigningin bindur enda á þetta gleðigeim, því gáttir opnast himins og allir halda heim.“

Bjartmar og Kolla hafa áður verið fyrst bænda til að hefja slátt. Ljósm. úr safni frá 11. júní 2012 / mm.

Líkar þetta

Fleiri fréttir