Frá undirritun samningsins. F.v. Benedikt Stefánsson forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá CRI, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra, Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem á Íslandi og Ólafur Adolfsson stjórnarformaður Þróunarfélags Grundartanga. Ljósm. Landsvirkjun.

Skoða samstarf um framleiðslu á rafeldsneyti á Grundartanga

Landsvirkjun, Carbon Recycling International, Elkem á Íslandi og Þróunarfélag Grundartanga áforma samstarf um skoðun á framleiðslu á grænu metanóli. Framleiðslan myndi nýta endurnýjanlega raforku Landsvirkjunar, framleiðslutækni Carbon Recycling International og glatvarma ásamt koldíoxíði sem fangað yrði úr kísilveri Elkem á Grundartanga.

Framleiðsla þessi yrði í anda þeirrar undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið að undanförnu af Þróunarfélagi Grundartanga og samstarfsaðilum með stuðningi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, þar sem horft er sérstaklega til þess að nýta orku- og efnisstrauma á nýjan hátt til að auka sjálfbærni, draga úr loftslagsáhrifum og skapa ný verðmæti.

Útlit er fyrir að rafeldsneyti á borð við grænt metanól verði lykilþáttur í orkuskiptum sem framundan eru, í samræmi við markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Metanól hentar bæði í iðnað og til að knýja fjölbreytt samgöngutæki, en stóran hluta þeirrar losunar sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að minnka má rekja til samgangna. Nágrannalönd Íslands hafa einnig metnaðarfull markmið um að skipta út jarðefnaeldsneyti, sem gæti skapað tækifæri á útflutningi íslensks rafeldsneytis.

Líkar þetta

Fleiri fréttir