Pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir lagðar niður

Alþingi samþykkti seint á laugardaginn frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um breytingu á barnaverndarlögum. Málið er liður í endurskoðun laga um þjónustu í þágu barna. Um er að ræða fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga. Í lögunum felst meðal annars að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Í stað barnaverndarnefndar verður starfrækt barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar á vegum sveitarfélaga. Sérstök áhersla er lögð á fagþekkingu innan umdæmisráða barnaverndar. Þá er kveðið á um að barnaverndarumdæmi séu almennt ekki fámennari en 6.000 íbúar. Sveitarfélög geta þó fengið undanþágu frá reglum um lágmarksíbúafjölda ef þau sýna fram á lágmarks fagþekkingu á barnavernd.

Lögunum er jafnframt ætlað að gefa færi á samþættingu barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu sem er veitt í þágu barna. Tengjast ákvæði laganna að því leyti öðrum frumvörpum sem urðu að lögum í gær um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir