Ljósm. aðsend

Úlfar Örn sýnir á Hótel Hamri

Laugardaginn 12. júní kl. 14 opnar Úlfar Örn myndlistarsýninguna Hillingar á Icelandair Hótel Hamri í Borgarnesi. Þar sýnir hann stór fígúratíf málverk sem öll eru unnin á árinu 2021. Úlfar hefur unnið við fígúratífan myndheim sinn mörg undanfarin ár.  Í þessari sýningu skoðar hann það áhugaverða fyrirbæri hillingar. Hillingar myndast þegar við hitabreytingar ljósbylgjur breyta um stefnu og spegla þannig mynd af himninum eða hlutum í nágrenninu. Eru fígúrurnar endurskin, sjónhverfing eða jafnvel draumsýn?  Úlfar hefur ávallt lagt áherslu á að þjálfa teiknihæfileika sína og telur það undirstöðu alls í sinni vinnu. Í verkunum fangar hann ekki aðeins anatómíuna í fígúrunum heldur leggur hann áherslu á hreyfinguna og taktinn í hreyfingunni.

Úlfar Örn er fæddur í Reykjavík árið 1952. Hann stundaði nám í auglýsingadeild MHÍ í Reykjavík og lærði myndskreytingar í Konstfack í Stokkhólmi. Hann starfaði við hönnun og auglýsingagerð í mörg ár ásamt því að iðka list sína. En undanfarin ár hefur hann getað helgað sig myndlistinni. Hann er þekktur fyrir áhugaverða nálgun sína í olíumálverkum af íslenska hestinum þar sem augað er í forgrunni og verk hans prýða bæði opinberar byggingar og mörg einkasöfn. Úlfar hefur haldið fjölmargar einkasýningar á Íslandi og tekið þátt í samsýningum erlendis. Nýlega flutti hann vinnustofu sína og gallerí austur í Laugarás í Bláskógabyggð þar sem hann er búsettur. Þar er opið flesta daga eða eftir samkomulagi.

Sýningin er sölusýning en málverk eftir Úlfar Örn munu vera til sýnis á Hótel Hamri fram á vorið 2022.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir