Myndasyrpa – Vegabætur í Hafnarfjalli

Uppbygging gönguleiða á vegum hins nýstofnaða Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs hófst með látum í gær þegar sjálfboðaliðar á vegum félagsins tóku til hendinni í hlíðum Hafnarfjalls. Níu manns, nefndarfólk í Stikunefnd og fleiri félagsmenn, mættu í fjallið með naglbíta og sleggjur. Verkefni dagsins var að rífa niður girðingu sem var búin að ganga frá starfslokasamningi fyrir nokkru. Einnig stóð til að hefja stikun leiðarinnar upp á topp.

Það er skemmst frá því að segja að sjálfboðaliðarnir voru í þvílíku stuði að þeir fóru langt með að klára niðurrif girðingarinnar og búið er að stika leiðina frá upphafspunkti, um gilið, og langleiðina upp á topp. Sömuleiðis var leiðin gegnum skriðuna ofan við stífluna lagfærð lítillega. Þetta var langt fram úr öllum væntingum og framkvæmdaáætlunum, enda sagði Bjarki Þorsteinsson, formaður Stikunefndar, að leita hafi þurft lengi að lífsmörkum hjá einstaka miðaldra Stikunefndarmönnum!

Þess ber að geta að áður en framkvæmdir í Hafnarfjalli hófust voru stikurnar sagaðar í réttar lengdir og þær málaðar rauðar á vinnustofu Brákarhlíðar í Borgarnesi. Það sem eftir er að gera er að fjarlægja restina af girðingarstaurunum og að setja síðustu stikurnar á toppinn. Einnig er ætlunin að stika „brattari leiðina“ upp að Steini. Þá er eftir að setja upp skilti sem sýnir hvar gönguleiðin beygir út af gamla þjóðveginum. Það skilti er til hjá UMSB.

Þessu verður lokið einhvern tímann á næstu vikum. Þá er það draumur FFB að setja upp upplýsingaskilti um Hafnarfjall og nágrenni á bílastæði við upphaf gönguleiðarinnar, ef fjármagn fæst til þess. Þetta verkefni var styrkt af Hvalfjarðarsveit og Kaupfélagi Borgfirðinga og þakkar FFB kærlega fyrir stuðninginn. Þeir sem ekki komust í fjallið í gærkvöldi þurfa ekki að örvænta því á næstu dögum verður farið í að ljúka verkinu auk þess sem fleiri spennandi verkefni eru fram undan.

Líkar þetta

Fleiri fréttir