Kastað til bata hópurinn með bleiku stangirnar. Ljósm. aðsend.

Myndasyrpa – Kastað til bata með bleikum stöngum

Kastað til bata nefnist skemmtilegt endurhæfingarverkefni á vegum Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna og Krabbameinsfélagsins. Um er að ræða veiðiferð þar sem konur hittast og fara saman að veiða og er veiðiferðin hluti af endurhæfingarferli eftir meðferð við brjóstakrabbameini. Ferðirnar hafa gefið afar góða raun og létt lundina svo eftir er tekið. Komin er reynsla á að ferðirnar hafa haft jákvæð áhrif á andlega uppbyggingu eftir erfiða meðferð.

Verkefnið hófst árið 2010 og er hugmynd frá Bandaríkjunum, „Casting For Recovery“ og hugsað sem endurhæfing fyrir konur sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini. Í rauninni skiptir ekki máli hversu langur tími er síðan meðferðinni lauk. Tvær ferðir voru farnar nú fyrir skömmu, báðar í Langá á Mýrum. Fyrra hollið var dagana 30. maí – 1. júní og svo 1.- 3. júní með þátttöku 12 kvenna. Þessi ævintýraferð var þátttakendum að kostnaðarlausu.

Gerast einhverjir töfrar

Blaðamaður Skessuhorns ræddi við Auði Elísabetu Jóhannsdóttur, verkefnastjóra verkefnisins og ráðgjafa hjá Krabbameinsfélaginu um verkefnið. „Veiðiferðirnar hafa verið ein á hverju ári en vegna Covid féll ferðin í fyrra niður. Við ákváðum því að hafa ferðirnar tvær í ár. Í byrjun hverrar veiðiferðar fara konurnar í vöðlur, fá veiðikastkennslu og vaða síðan yfir ána og til baka. Þær halda þrjár, fjórar í hvor aðra og styðja þannig við hver aðra, það er eins og þær fari yfir einhvern hjalla. Þeim finnst þetta frábært og eru himinlifandi.

Margar af konunum hafa aldrei farið í veiði og eru því að stíga sín fyrstu skref. „Þetta er frábær æfing fyrir brjóstvöðvann og flestar eru með strengi eftir ferðirnar. Þá eru sumar konurnar að tala um sína reynslu og meðferð í fyrsta sinn og finna fyrir þessari samkennd sem ríkir þeirra á milli,“ segir Auður.  „Það er svo dásamlegt að sjá hvað konurnar eru fljótar að tengjast og deila sínum persónulegu sögum sem næra þær bæði á líkama og sál. Það gerast einhverjir töfrar í þessum aðstæðum. Og þó umræðurnar snúist stundum um alvarleg málefni er hláturinn aldrei langt undan.”

Eins og áður sagði eru það Brjóstaheill – Samhjálp kvenna, stuðnings- og baráttuhópur kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein sem er aðal styrktaraðili verkefnisins ásamt Krabbameinsfélaginu. Brjóstaheill leggur til tvo til þrjá starfsmenn og Krabbameinsfélagið kostar síðan þátttöku Auðar Elísabetar. „Stuðningur styrktaraðila skiptir höfuðmáli til að gera þetta skemmtilega endurhæfingarverkefni að veruleika.  Brjóstaheill hefur leitað til Velunnarasjóðs Krabbameinsfélagsins með styrk til að halda þetta flotta verkefni,“ segir Auður.  Aðspurð um hvernig fólk getur snúið sér vilji það leggja verkefninu lið bendir Auður á Brjóstaheill.

Með bleikan veiðibúnað

Veiðivöruframleiðandinn Sage er styrktaraðili verkefnisins í Bandaríkjunum. „Verkefnið okkar hér á Íslandi er það eina á Norðurlöndunum,“ segir Auður. „Við fréttum af þessu verkefni í Bandaríkjunum og hreinlega urðum að koma þessu verkefni á laggirnar hér í okkar fallega veiðiumhverfi og að eignast svona bleikar stangir. Fyrirtækið framleiðir sérstaklega búnað vegna þessa verkefnis. Það eru bleikar stangir, veiðihjól og girni og jafnvel taskan undir búnaðinn er bleik. Leiðsögumenn sem við höfum haft hafa verið að missa sig yfir stöngunum, verða hissa fyrst en síðan ótrúlega ánægðir með þær.“   Þannig að það er ekki skrýtið að það er bleikt þema út í eitt í þessum ferðum.

María í Veiðihorninu hefur verið aðstandendum verkefnisins afar hjálpleg við að útvega Sage stangirnar. „Í dag eigum við fjórar bleikar stangir og sex venjulegar stangir. Tvær þessara venjulegu eyðilögðust reyndar í síðustu veiðiferðunum og því vantar okkur fleiri stangir. Draumurinn er að eignast fleiri bleikar stangir. Það er hreinlega slegist um þær í ferðunum því þetta eru svo góðar stangir.“  Aðspurð um hvernig fólk getur snúið sér vilji það leggja verkefninu lið bendir Auður á Guðrúnu Kristínu Svavarsdóttur en hún er verkefnastýra verkefnisins fyrir hönd Brjóstaheil – Samhjálpar kvenna.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir