Heba Bjarg er dúx frá FVA. Ljósm. aðsend

Heba Bjarg er dúx FVA

Föstudaginn 28. maí voru 55 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Heba Bjarg Einarsdóttir var með bestan námsárangur á stúdentsprófi með 9,34 í lokaeinkunn. Heba lauk námi af félagsfræðibraut en hún valdi þá braut því henni þótti áfangarnir skemmtilegir og gagnlegir og þessi braut góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám. „Félagsfræðibraut býður upp á ýmsa skemmtilega áfanga, eins og sálfræði, sögu og félagsfræði,“ segir hún. Spurð hver sé lykillinn að þessum góða námsárangri segir hún það vera metnað. „Ég mætti eins vel og ég gat. Maður á ekki að vinna verkefnin alltaf á síðustu stundu og skila öllum verkefnum á réttum tíma,“segir Heba. Í tilefni útskriftarinnar komu fjölskylda og vinir Hebu í smá útskriftarveislu og um kvöldið fagnaði hún með vinum og öðrum nýstúdentum.

Aðspurð segist Heba hafa unnið með skóla en áhugamálin sem hún nýtir frítíma sinn í er að prjóna, horfa á Grey‘s Anatomy og hitta vini sína. En hvað tekur nú við hjá dúx Fjölbrautaskóla Vesturlands? „Ég er að fara í lögfræði í Háskóla Íslands í haust,“ svarar hún og bætir við að námið muni taka hana fimm ár. „En hver veit hvað framtíðin hefur í för með sér,“ spyr Heba Bjarg Einarsdóttir á móti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir