Vindmylla. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Ljósm. úr safni.

Hafna fyrirhuguðum aðalskipulagsbreytingum vegna nýtingu vindorku á Grjóthálsi að svo stöddu

Á fundi sveitarstjórnar í Borgarbyggð í gær, fimmtudaginn 10. júní, hafnaði sveitarstjórn að svo stöddu fyrirhuguðum aðalskipulagsbreytingum eða frekari skipulagsvinnu vegna nýtingu vindorku á Grjóthálsi. Yfir 70 athugasemdir bárust á kynningartíma og lýstu þær mikilli andstöðu við framkvæmdirnar. Athugasemdirnar snérust m.a. um neikvæð áhrif á náttúru og umhverfi, sjónmengun, hávaðamengun og neikvæð áhrif á gróður og dýralíf. „Athugasemdir eiga mikinn rétt á sér í ýmsum þáttum en aðrar athugasemdir eru byggðar á því að fólk er ekki nógu upplýst um eðli vindmylla. Enda vindmyllur ekki algengur orkugjafi á Íslandi enn sem komið er,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri Borgarbyggðar. Þá bendir hún á að ekki liggi fyrir hver stefna Borgarbyggðar sé varðandi vindorkuver í sveitarfélaginu og komu athugasemdir varðandi það frá lögbundnum umsagnaraðilum. „Endurskoðun aðalskipulags stendur yfir og vísaði sveitarstjórn málinu til endurskoðunar aðalskipulags Borgarbyggðar á fundi sínum í gær. Í aðalskipulaginu á að móta stefnu um nýtingu vindorku í samvinnu við íbúa og hagsmunaaðila sveitarfélagsins,“ segir Þórdís.

Líkar þetta

Fleiri fréttir