Grátlegt tap Ólsara gegn Fjölni

Víkingur Ólafsvík lék við lið Fjölnis úr Grafarvogi í Lengjudeild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Víkingur komst yfir rétt fyrir hálfleik með marki Þorleifs Úlfarssonar og í seinni hálfleik varðist Víkingur frábærlega og  var grátlega nálægt sínum fyrsta sigri í deildinni í sumar. Það voru hins vegar Fjölnismenn sem stálu sigrinum undir lok leiksins; Fyrst var það Skagamaðurinn Ragnar Leósson sem jafnaði metin á fjórðu mínútu í uppbótatíma fyrir Fjölni og síðan skoraði Hilmir Rafn Mikaelsson á sjöttu mínútu uppbótatíma og tryggði heimamönnum ótrúlegan sigur.

Í viðtali eftir leik sagði Gunnar Einarsson, þjálfari Víkings, að þetta væri ofboðslega súrt en engu að síður væri stígandi í þessu hjá Víkingi: „Heilt yfir áttum við skilið meira út úr þessum leik en mörk breyta leikjum og þeir gerðu vel þarna í lokin.” Víkingur situr því enn á botni Lengjudeildarinnar með eitt stig eftir sex umferðir. Næsti leikur liðsins er gegn Vestra frá Ísafirði laugardaginn 19. júní á Ólafsvíkurvelli og hefst klukkan tólf á hádegi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir