Útskriftarnemendur Slökkviliðs Borgarbyggðar. Ljósm. vaks

Útskrift slökkviliðsmanna í Borgarnesi

Í gær fór fram í Hjálmakletti í Borgarnesi útskrift slökkviliðsmanna úr fullnaðarnámi hjá Slökkviliði Borgarbyggðar. Í fyrsta skipti í sögu slökkviliðsins eru slökkviliðsmenn útskrifaðir eftir að hafa setið námskeiðin hjá liðinu sjálfu en fyrir um ári síðan fékkst sú viðurkenning hjá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun að Slökkvilið Borgarbyggðar annaðist fræðslu og bók- og verklega kennslu á námskeiðum fyrir sína liðsmenn. Kennt var efni frá Brunamálaskóla HMS og eftir þeim stöðlum og verklagsreglum er um það gilda. Alls voru þetta 23 nemendur sem útskrifuðust í gær með það nám á bakinu að þeir geti í framhaldinu sótt um löggildingu sem slökkviliðsmenn.

Í ræðu sem Bjarni Þorsteinsson, Slökkviliðsstjóri Borgarbyggðar, hélt á athöfninni kom fram að það hefði lengi verið baráttumál hans að námskeiðahald og kennsla námsefnis Brunamálaskóla Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar yrði með því sniði að færa kennslu, þjálfun og ábyrgð heim í hérað og að slökkviliðin sjálf myndu annast kennsluna samkvæmt verklagsreglum HMS. Það hefði því verið stór sigur fyrir þá þegar HMS féllst á það að þeir yrðu tilraunaverkefnið sem hefur gefið svo góða raun að þessu fyrirkomulagi verður komið á til frambúðar.

Þá talaði Bjarni um fjölskyldur slökkviliðsmanna sem sýndu þeim mikinn stuðning, skilning og fórnfýsi í þeirra störfum og við ættum að vera stolt af okkar góða samfélagi og héraðinu öllu. Að lokum beindi Bjarni orðum sínum að nýútskrifuðum slökkviliðsmönnum og sagði: „Munum að ekkert slökkvilið er sterkara en veikasti hlekkurinn í keðjunni og ekkert vinnst nema með órofa samstöðu okkar allra. Dagurinn er ykkar, nú sjáið þið ávöxtinn af námi ykkar sem gerir ykkur og okkur alla hæfari til þess að fást við þau störf sem eru lögð á okkar herðar og þið hafið leyst með miklum myndarbrag hingað til. Njótið því dagsins og gleðjist með fjölskyldum ykkar því þið hafið svo sannarlega unnið til þess.“

Eftir ræðu Bjarna voru útskriftarnemendur kallaðir upp á svið og greindi varaslökkviliðsstjóri Borgarbyggðar, Heiðar Örn Jónsson, frá því hvaða námi menn höfðu lokið og afhenti þeim viðurkenningar þess efnis og skjaldarmerki Slökkviliðs Borgarbyggðar því til staðfestingar. Í lok útskriftar var síðan boðið upp á kaffi og meðlæti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir