Bólusett á Akranesi. Ljósm. mm

Tilkynningar um aukaverkanir eftir bólusetningu

Á heimasíðu Lyfjastofnunar hefur verið birt sundurliðun á tilkynningum vegna gruns um alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar við Covid-19. Samkvæmt þeim gögnum sem stofnunin birti þriðjudaginn 8. júní höfðu þá 100 tilkynningar vegna gruns um alvarlegar aukaverkanir borist Lyfjastofnun. Alls hafa 23 tilkynningar borist um dauðsföll í kjölfar bólusetningar en flestar þeirra bárust í janúar, þegar elsti og hrumasti hópurinn var bólusettur.

45 alvarlegar tilkynningar hafa borist vegna bóluefnis Pfizer, 20 varðandi andlát, þar af 16 andlát einstaklinga 75 ára eða eldri og voru 13 þeirra með undirliggjandi sjúkdóma. Þrjú andlát voru hjá fólki á aldrinum 65-74 ára og voru tveir þeirra með undirliggjandi sjúkdóma. Þá barst ein tilkynning um andlát einstaklings á aldrinum 60-64 ára sem var með undirliggjandi sjúkdóm. 17 tilkynningar bárust um sjúkrahúsvist í kjölfar bólusetningar og þar af voru fimm tilfelli um lífshættulegt ástand. Átta tilkynningar sem metnar voru sem klínískt mikilvægar en ekki kom til innlagnar á sjúkrahúsi.

Tólf tilkynningar hafa borist vegna Moderna bóluefnisins en engin vegna andláts. Tíu þeirra voru vegna einstaklinga sem þurftu að leggjast inn á sjúkrahús og þar af var ein tilkynningin um lífshættulegt ástand. Ein tilkynning barst varðandi lífshættulegt ástand og ein sem flokkast sem klínískt mikilvægt tilfelli sem þó kom ekki til innlagnar á sjúkrahúsi.

Vegna AstraZeneca bóluefnisins hafa borist 42 alvarlegar tilkynningar. Þrjár hafa tengst andláti og þar af tvær hjá einstaklingum á aldrinum 65-74 ára sem voru með undirliggjandi sjúkdóma og ein tilkynning um einstakling á aldrinum 60-64 ára. 32 tilkynningar hafa borist um sjúkrahúsvist vegna bóluefnisins og þar af tíu tilfelli af lífshættulegu ástandi. Sex tilkynningar töldust klínískt mikilvægar en þó kom ekki til innlagnar á sjúkrahúsi. Ein tilkynning var vegna tímabundinnar lömunar í útlim ásamt öðrum tímabundnum einkennum.

Aðeins ein alvarleg tilkynning hefur borist vegna Janssen bóluefnisins og það var vegna sjúkrahúsvistar.

Lyfjastofnun bendir á að ekki sé hægt að benda á orsakasamband milli tilkynntra andláta og bólusetninga. Ólíkt samsettir hópar hafa fengið mismunandi bóluefni og því ekki hægt að gera beinan samanburð. Fyrst voru bólusettir hópar eins og t.d. heilbrigðisstarfsfólk sem ber skylda til þess að tilkynna um aukaverkanir og gæti það haft áhrif á fjölda tilkynninga á þeim tíma. En auk þeirra voru aldraðir í hópi þeirra sem fengu fyrst bólusetningu og hafa margir þeirra undirliggjandi sjúkdóma. Þar má því búast við fleiri tilkynningum en það þarf ekki að vera orsakasamband þar á milli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir