„Halló! Ertu þarna?“ Á þessum eina stað í húsinu í Ölkeldu II er hægt að ná GSM sambandi. Ljósm. vaks

Símakuldi á Ölkeldu í Staðarsveit

Blaðamaður Skessuhorns kíkti í lok síðustu viku í heimsókn á bæinn Ölkeldu II í Staðarsveit. Þar býr bóndinn Kristján Þórðarson ásamt Astrid konu sinni og reka þau þar kúabú ásamt Jóni Svavari bróður hans og syni hans Þórði og fjölskyldum þeirra. Þau hafa síðustu tvo áratugi þurft að glíma við svokallaðan símakulda á bæjunum þremur. Nánast ekkert GSM samband er á svæðinu og eru alls fimm bæir þarna í kring sem eiga við þennan vanda að etja. Þetta eru auk Ölkeldu; Furubrekka, Foss, Álftavatn og Lindarbrekka. Árið 2008 skipti Kristján um allt gler í húsinu á Ölkeldu með svokölluðu K-gleri sem er flotgler og er mun betra að gæðum en venjulegt gler. Svo gott er það að eftir þetta versnaði GSM sambandið enn meira á bænum og var þó ekki gott fyrir. Kristján segir þetta bagalegt ástand og að þetta sé öryggismál: „Það eru tvö símamöstur hérna, annað er á Gröf og hitt er á Öxl. Tvö fjöll eru í beinni línu milli þessara bæja sem blokka líklegast símasambandið, Lágafellshyrnan fyrir austan og Þorgeirsfell fyrir vestan. Maður frá Neyðarlínunni kom hérna við um daginn og náði engu sambandi og vildi bæta við mastri á hólinn hjá okkur sem er svo sem ágætis hugmynd.“

Heimasíminn datt út í þrjár vikur

Kristján segir þó að líklegast væri best að setja mastur á vitann á Kirkjuhóli og er vongóður um það eftir heimsókn starfsmanns Neyðarlínunnar. „Það myndi bæta úr þessu vandamáli, ekki bara á þessum bæjum heldur í Staðarsveitinni allri því ekki er alls staðar gott GSM samband hér í sveit þó hvergi sé það eins slæmt og hér. Það þarf einhvern punkt til að magna þetta upp þó það séu blettir og blettir sem detta inn að þá er það alls ekki nóg. Það er einn staður í húsinu sem eitthvað GSM samband næst og það er í forstofunni. Ég skipti um símafyrirtæki fyrir stuttu og þegar það gerðist datt heimasíminn út hjá mér í þrjár vikur. Það þýddi að ég var nánast símasambandslaus allan þennan tíma og það var ekki góð tilfinning.“

Þá segir Kristján einnig að það færist sífellt í vöxt að göngugarpar séu að príla um fjöllin fyrir ofan og séu ekki í neinu GSM sambandi. „Það virðist svo að símafyrirtækin hafi ekki nokkurn áhuga að þjóna þessum nokkrum vælandi íbúum varðandi símamálin og að áherslan verði að vera á öryggismálin til að þoka þessum málum áfram.“ Hins vegar segir Kristján að það megi alveg hæla ljósleiðaravæðingunni sem hér hafi orðið: „Það eru allir bæir hér í fullkomnu netsambandi en því miður hefur það ekki áhrif á blessað símasambandið.“

Róbótarnir þurfa GSM samband

Ölkeldubændur eru nýlega búnir að stækka við fjósið hjá sér. Þeir eru með um 80 mjólkandi kýr og auk þess töluvert nautaeldi. Með viðbyggingunni stækkaði fjósið um alls 400 fermetra og er allt húsið nú um 1500 fermetrar. Næsta mál hjá bændunum er að „róbótavæða,“ sem sagt að kaupa sér mjaltaþjóna í fjósið hjá sér og það er fjárfesting upp á tugi milljóna króna að sögn Kristjáns. „En þar kemur aftur babb í bátinn því róbótarnir þurfa GSM samband til að láta okkur vita ef eitthvað er ekki í lagi hjá þeim og því er nauðsynlegt að hafa þetta samband til að þeir geti sent okkur skilaboð. Það er því óljóst hvort það sé gerlegt en leysist vonandi þegar þar að kemur.“

Nánast ekkert GSM samband er í fjósinu og getur blaðamaður staðfest það. Kristján er í samstarfi með bróður sínum og syni hans en stundum komi það fyrir að þeir séu að þvælast einir í fjósinu: „Ef eitthvað kæmi fyrir þá væri lítið sem við gætum gert því við gætum ekki látið vita af okkur á þessu dauða svæði sem fjósið er. Eins og ég sagði að þá er þetta öryggismál fyrir okkur bændurna hér í sveitinni og þolinmæði okkar er nánast á þrotum. Þetta er eins og með margt annað, maður venst þessu ef hlutir eru í ólagi í einhvern tíma en nú erum við komnir alveg að þolmörkum í þessu máli,“ sagði Kristján bóndi á Ölkeldu að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir