Prjónahátíð á Blönduósi um helgina

Um helgina, 11.-13. júní,  verður haldin mikil prjónahátíð á Blönduósi. Er þetta í fimmta sinn sem hátíðin er haldin. Þar koma saman prjónarar af öllu landinu til að gera sér glaðan dag og taka þátt í ýmsum námskeiðum og viðburðum sem tengjast prjónaskap. Hátíðin hefst formlega kl. 20:00 annað kvöld með opnunarávarpi. Þá mun Linda Björk Eiríksdóttir segja sögur af sér og prjónahönnuðinum Stephen West auk þess sem prjónakaffi verður á föstudagskvöldinu. Allra hörðustu prjónararnir vakna svo snemma á laugardagsmorgun og fara í prjónajóga. Fjölbreytt námskeið verða haldin allan laugardaginn þar sem m.a. verður hægt að efla litatilfinninguna, læra að þæfa eða gimba og margt fleira áhugavert. Einnig verða ýmsir fyrirlestrar í boði yfir daginn. Um kvöldið verður svo prjónahittingur á pöbbinum.

Á sunnudeginum verður einnig ýmislegt skemmtilegt í boði en aftur vakna hörðustu prjónararnir snemma og skella sér í jóga áður en fjölbreytt úrval námskeiða verða í boði. Hægt verður að læra að prjóna kaðlabútateppi og að hafa stjórn á ríkjandi og víkjandi lykkjum í tvíbandaprjóni svo dæmi séu tekin. Kl. 11:00 verður sérstök prjónamessa í Blönduóskirkju og strax eftir hádegið verður endurnýtingaverkstæðið fyrir prjónelsi og textíl opnað. Ebba Pálsdóttir mun halda fyrirlestur kl. 13:00 þar sem hún fjallar um prjónastellingar, lýsingu og stuðning ásamt ýmsu öðru sem gott er að vita til að líða vel í líkamanum við prjónaskapinn. Garntorgið í íþróttahúsinu verður opið alla helgina en nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar er að finna á textilmidstod.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir