Tómas Freyr Kristjánsson ljósmyndari í Grundarfirði tók þessa skemmtilegu mynd í mars 2015.

Deildarmyrkvi í dag

Í dag, fimmtudaginn 10. júní, mun deildarmyrkvi á sólu sjást frá Íslandi, ef skýin leyfa. Í deildarmyrkva fer tunglið að hluta til fyrir sólina en þó ekki svo það verði almyrkvi. Haft er eftir Þórði Arasyni, sérfræðingi á Veðurstofu Íslands, á vef Veðurstofu Íslands að þetta verði mesti sólmyrkvi hér á landi frá því 20. mars 2015, þegar það var 98% myrkvun í Reykjavík og yfir 99% á Austfjörðum. „Í Reykjavík hefst myrkvinn kl. 09:06 og lýkur kl. 11:33. Hann verður mestur kl. 10:17, en þá skyggir tungl á 69% af þvermáli sólar og veldur 61% myrkvun. Mesta myrkvun á Íslandi verður breytileg eftir landsvæðum, 56-65% og tímasetningu getur skeikað um nokkrar mínútur frá Reykjavík. Skýjafar og veður hafa mikil áhrif á hversu vel myrkvinn sést,“ segir á vef Veðurstofu Íslands. Það er þó ekki útlit fyrir hagstætt veður til að sjá þennan viðburð þar sem ský munu að mestu hylja landið á þessum tíma.

Þá er vert að minna á að þeir sem ætla að freista þess að skoða þennan deildarmyrkva að verða sér úti um sérstök gleraugu fyrst til að vernda augun.

Líkar þetta

Fleiri fréttir