Bragi Þór Svavarsson skólameistari og Marinó Þór Pálmason dúx við útskrift.

Ætlaði bara að gera sitt besta og dúxaði

Föstudaginn 28. maí síðastliðinn voru 27 nemendur brautskráðir frá Menntaskóla Borgarfjarðar. Marinó Þór Pálmason var dúx skólans með 9,59 í lokaeinkunn. Marinó útskrifaðist af náttúrufræðibraut en hann valdi þá braut því hún hentaði hans áhugasviði best. „Ég hef alltaf verið mjög sterkur í raungreinum og áhuginn minn liggur þar,“ segir hann. Spurður hver sé lykillinn að þessum góða árangri í námi segir hann það fyrst og fremst vera skipulag og að nýta tímann sinn eins vel og hægt er. Hann segist aldrei hafa sett það sem markmið að vera dúx og ná svo hárri lokaeinkunn. „Ég ætlaði bara að gera eins vel og ég gæti,“ segir hann. Aðspurður segist hann ekki hafa þurft að eyða óhóflegum tíma í námið til að ná þessum árangri. „Auðvitað tekur þetta tíma en ég held að þetta snúist frekar um hvernig þú nýtir tímann sem þú ert að læra frekar en hversu miklum tíma þú verð í að læra,“ segir Marinó.

Samhliða námi hefur Marinó verið að æfa körfubolta og spilar hann með meistaraflokki Skallagríms. „Ég var að klára mitt annað heila tímabil núna í vor,“ segir hann. En hefur hann þá haft tíma fyrir annað félagslíf? „Já, ég hef alveg náð að búa til tíma fyrir það. Ég var til dæmis í stjórn nemendafélagsins í vetur og það gekk vel og nóg að gera,“ segir hann. Spurður hvað taki við núna segir hann það ekki alveg ákveðið. „Ég er að skoða möguleikann á að taka mér pásu frá námi í eitt ár og fara að vinna en ég er líka að skoða hvort ég eigi að fara í Háskólann í Reykjavík í einhvers konar verkfræði. Ég stefni svo á að fara haustið 2022 til Bandaríkjanna og fara í háskóla á körfuboltastyrk. Það getur reyndar verið mjög erfitt að komast að svoleiðis en ég stefni samt á það,“ segir hann. Spurður hvað hann ætli að læra í Bandaríkjunum segist hann vilja læra verkfræði eða íþróttasálfræði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir