Hótel Laugar í Sælingsdal opnað á mánudaginn

Hótel Laugar í Sælingsdal verður opnað 7. júní næstkomandi. „Við tókum bygginguna á leigu frá 1. janúar á þessu ári en þarna hefur ekkert verið síðan Hótel Edda var rekin í húsinu 2019,“ segir Harpa Einarsdóttir hótelstjóri og einn af rekstraraðilum Hótel Lauga í Sælingsdal. Hótelið er í eigu Heilsusköpunar ehf. sem þær Harpa og Erla Ólafsdóttir eiga saman en Harpa mun sjá um daglegan rekstur hótelsins. „Við höfum verið með opið í vetur fyrir fyrir fram bókaða hópa eins og heilsuhópa, jógahópa og fjölskylduhópa. En nú opnum við hótelið fyrir gestum og gangandi,” segir Harpa í samtali við Skessuhorn.

Harpa Einarsdóttir hótelstjóri og einn af rekstraraðilum Hótel Lauga í Sælingsdal.

Hótel Laugar í Sælingsdal er með 22 uppábúin herbergi með sér baðherbergisaðstöðu. Að auki eru 20 herbergi, öll tveggja manna, með sameiginlega baðherbergisaðstöðu sem notuð verða sem svefnpokapláss. „Þetta er tilvalinn staður fyrir stóra hópa eins og til dæmis fjölskyldur og ættarmót. Hér er góð tjaldaðstaða, rosalega flott sundlaug og íþróttasalur. Þessa frábæru aðstöðu er hægt að leigja út hjá okkur. Þetta er svo skemmtilegt svæði hér í kring. Við munum þó í sumar bjóða upp á alls kyns daga þar sem heilsan verður í fyrirrúmi eins og heilsudaga, göngudaga og fleira spennandi. Það er um að gera að fylgjast með á FB síðunni hjá Hótel Laugar Sælingsdal.“ segir Harpa. „Svo verðum við líka með verðlaunakokk hjá okkur í sumar, hann Ragga Ómars. Hann ætlar að töfra fram dýrindismáltíðir fyrir gesti okkur á veitingastaðnum á hótelinu,“ bætir hún við.

Sérstakt opnunartilboð verður í boði til 20. júní næstkomandi og segir Harpa bókanirnar farnar að tínast inn. „Það er svolítið búið að bóka hjá okkur og sérstaklega núna með opnunartilboðinu. Ég er bjartsýn á sumarið,“ segir Harpa að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir