Vakin er athygli á að meðfylgjandi mynd er samsett, en búkur Guðna er góðfúslega tekinn að láni hjá flokksbróður hans Sindra Sigurgeirssyni sem opnaði ána sumarið 2018. Hjá honum í ánni stendur Einar Sigfússon.

Guðni mun kasta fyrir fyrstu laxana

Ávallt ríkir nokkur eftirvænting eftir hverjum er boðið að kasta fyrir fyrstu laxana þegar Norðurá í Borgarfirði er opnuð fyrir veiði. Í hugum margra markar sú opnun formlegt upphaf laxveiðitímabilsins hverju sinni. Ýmsum þjóðþekktum einstaklingum hefur hlotnast þessi heiður í gegnum tíðina. Nægir að nefna söngvarann Helga Björns í fyrra. Samkvæmt traustum heimildum Skessuhorns er Guðni Ágústsson fyrrum landbúnaðarráðherra væntanlegur á árbakkann í fyrramálið og verður Einari Sigfússyni sölustjóra árinnar til halds og trausts við veiðarnar. Hent verður agni fyrir þann silfraða klukkan 8 í fyrramálið að afloknum dögurði í veiðihúsinu þar sem gamanmál verða vafalítið á hraðbergi. Við segjum fréttir af því á morgun ef Guðni nær að setja í fisk.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir