Nú reynir á Dino Hodzic markmann Skagamanna eftir að Árni Snær Ólafsson meiddist í síðustu viku og verður frá keppni út þetta tímabil. Dino lék á mánudaginn sinn fyrsta leik í efstu deild. Ljósm. Guðmundur Bjarki Halldórsson.

Markalaust jafntefli hjá Skagamönnum

Skagamenn náðu ekki að krækja í sinn fyrsta sigur í Pepsi Max deildinni í fótbolta í gær þegar þeir tóku á móti Stjörnunni í fjórðu umferð deildarinnar, lokastaðan í leiknum 0-0. Liðið situr nú á botni deildarinnar með aðeins tvö stig ásamt fjórum öðrum liðum en aðeins þrjú stig eru upp í fimmta sætið. Tveir leikmenn ÍA léku sinn fyrsta leik í byrjunarliði og annar þeirra, Dino Hodzic, markvörður Skagamanna, lék sinn fyrsta leik í efstu deild en hann kom til liðs við ÍA frá Kára fyrir tímabilið. Þá var sóknarmaðurinn Morten Beck mættur eftir að hafa komið frá FH í síðustu viku og menn að vona að hann geti hjálpað við að leysa markaþurrð Skagamanna sem hafa aðeins skorað tvö mörk í fjórum leikjum til þessa.

Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill, liðin skiptust á að sækja en lítið um góð marktækifæri nema helst þegar Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður Stjörnunnar, fékk dauðafæri rétt fyrir hlé en renndi boltanum framhjá markinu. Í seinni hálfleik áttu Skagamenn hættulegri færi, fyrst var það Gísli Laxdal Unnarsson sem komst einn inn fyrir í byrjun hálfleiksins en markvörður Stjörnunnar, Haraldur Björnsson, varði vel og síðan varði hann aftur þegar Viktor Jónsson slapp í gegn undir lok leiks eftir klaufaskap varnarmanns Stjörnunnar.

Lokastaðan því markalaust jafntefli en Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var nokkuð ánægður með sína menn í viðtali eftir leik: „Það hefur vantað hjá okkur að ná ekki að klára leiki með góðum frammistöðum. Ég er ánægður með margt en hefði viljað vinna leikinn og mér fannst við skapa tækifæri til að landa þessum sigri.“

Næsti leikur Skagamanna í Pepsi Max deildinni verður næsta föstudag gegn HK í Kórnum í Kópavogi og hefst klukkan 18.00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir