Gámur til bráðabirgða fyrir dósamóttöku

Á bílastæði framan við slökkvistöðina við Sólbakka í Borgarnesi var í gær komið fyrir 40 feta gámi sem ætlaður er til að rúma dósamóttöku til bráðabirgða. Verður opið fyrir móttöku dósa í nokkra klukkutíma á dag. Eins og kunnugt er var dósamóttöku Öldunnar í Brákarey lokað í febrúar vegna þess að brunavörnum er ábótavant í húsinu. Slökkviliðsmenn telja þessa staðsetningu gámsins slæma í ljósi þess að ekki megi takmarka á neinn hátt aðgengi og athafnasvæði slökkviliðsins nú þegar hættustig almannavarna er í gildi í héraðinu vegna hættu á gróðureldum. Hafa þeir samkvæmt heimildum Skessuhorns komið athugasemdum sínum um það á framfæri. „Okkur finnst ekki fara saman að almenningur komi með bíla og kerrur á bílastæðið ef útkall verður. Ég tala nú ekki um þegar hættuástand ríkir vegna þurrka,“ sagði slökkviliðsmaður í skeyti til Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir