Eldur í sinu milli bæjanna Grafar og Kúludalsár

Upp úr klukkan 21 í kvöld kom upp eldur í sinu neðan við þjóðveginn, milli bæjanna Grafar og Kúludalsár í Hvalfirði. Eldurinn breiddist hratt út enda jörð skraufþurr. Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var kallað út, fyrst í litlu útkalli, en fljótlega allur tiltækur mannskapur. Slökkvistarf gekk vel og eru slökkviliðsmenn og lögregla nú langt komin með að hefta útbreiðslu eldsins. Lauslega áætlað er svæðið sem brann um 3-5 ha. Engar byggingar eru á svæðinu og Kúludalsáin rennur vestan við eldinn en þar standa bæjarhúsin á samnefndum bæ. Austan kaldi er á svæðinu og lagði um tíma mikinn reyk yfir fjörðinn, norðurenda Hvalfjarðarganganna og meðfram Akrafjalli.

Hættustig almennavarna er enn í gildi um mestallt vestanvert landið og því brýn ástæða til að hvetja fólk til að fara varlega með eld. Þá getur glóð í sígarettum hæglega kveikt eld, eins og líklegt verður að teljast að hafi verið ástæða brunans í kvöld.

Líkar þetta

Fleiri fréttir