Bayeux og Borgarnes

Það var góð tilfinning að koma í Landnámssetur Íslands síðastliðinn fimmtudag og finna þar aftur fullt hús af menningarþyrstum leikhúsgestum. Ekki síður var tilefnið sjálft gleðilegt, 15 ára afmæli þeirrar menningarstofnunar sem setrið er í höndum þeirra Sigríðar Margrétar Guðmundsdóttur og Kjartans Ragnarssonar. Gestir streymdu að og finna mátti einkennilega töfra í loftinu; hér var í vændum fyrsta sýningin á Söguloftinu eftir átta mánaða hlé.

Á sviðinu stóð Reynir Tómas Geirsson sem kunnari er fyrir afrek sín sem læknir en veru sína á sviði. Hann var hér kominn til að segja okkur frá Bayeux reflinum og þeim atburðum sem þar er lýst og gerðust fyrir 950 árum. Nefndur refill er útsaumuð teiknimyndasaga sem lýsir aðdraganda og atburðum orrustunnar við Hastings á Englandi árið 1066.  Það er ekki einfalt að glæða svo gamla sögu lífi en sögumanni lék efnið í höndum og tíminn leið hratt.  Margt varð til þess að sagan skilaði sér vel til áheyrenda.  Sagt var frá af þekkingu, frásögnin leið áfram hnökralaus, skýr og létt og mikið af myndum hjálpuðu til við að gera efnið lifandi og skemmtilegt. Það var gaman að fræðast um hvernig þessi merkilegi sögurefill var gerður, gaman að sjá litina í honum og rýna í smáatriði sem maður hefði ekki annars tekið eftir jafnvel þótt maður hefði skoðað refilinn sjálfan. Reynir tengdi sögu refilsins við Ísland með ýmsum hætti og hefur til að bera sérstaka frásagnargleði sem hrífur áheyrandann með. Svo hittist á að Reynir átti 75 ára afmæli þennan frumsýningardag. Var vel við hæfi að fagna hátíðisdegi með þessum hætti og að loknu þéttu lófaklappi var honum sunginn afmælissöngurinn.

Fjölmörg verk hafa verið flutt á sögulofti Landnámsseturs síðan fyrirtækið hóf starfsemi árið 2006 og öll hafa þau einkennst af áherslu á frásagnarlist og sagnamenningu. Þannig hafa áhugaverð ritverk og sögur færst okkur nær og slík tækifæri eru hverju samfélagi dýrmæt.

Guðrún Jónsdóttir

Líkar þetta

Fleiri fréttir