Fjarskiptamastur við Garðalund á Akranesi. Ljósm. úr fylgiskjali með deiliskipulagsbreytingu.

Átján metra hátt fjarskiptamastur verður reist á Akranesi

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum 11. maí síðastliðinn tillögu skipulags- og umhverfisráðs um deiliskipuskipulagsbreytingu vegna Garðalundar og Lækjarbotna. Í breytingunni felst að heimilt verði að reisa 18 metra hátt fjarskiptamastur ásamt 2,1 metra háum tækjaskáp, í um 200 metra fjarlægð frá byggð við Baugalund, um 250 metra frá næstu húsum í Jörundarholti og um 170 metra frá fyrirhugaðri byggð við Skógarlund. Það er Míla sem óskar eftir staðsetningu mastranna. Fram hefur komið að mikilvægt er að bæta farsímasamband ekki síst í ljósi fyrirhugaðrar stækkunar Skógahverfis.

Í bókun ráðsins frá 7. desember um sama mál lagði ráðið til að fjarskiptamastur, til að bæta farsímasamband á Akranesi, verði staðsett við Garðalund annarsvegar og Flóahverfi hinsvegar. Staðsetningar á háum fjarskiptamöstrum verði kynntar sem skipulagsbreytingar. Jafnframt sagði að uppsetning mastranna væri til að auka þjónustu og öryggi íbúa og fyrirtækja, í ljósi þess að farsímasambandi er ábótavant á vissum stöðum á Akranesi. Nú hefur verið ákveðið að reist verði eitt mastur sem þjóna á hinni nýju og vaxandi byggð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir