Meistaranemar ásamt nokkrum gestum. Ljósm. hg.

Vinnslan fór og hvað svo? – Sýning á verkum skipulagsfræðinema

Undanfarnar vikur hafa nemendur í meistaranámi í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands unnið að skipulagstillögum um framtíð svæðisins á Breið á Akranesi. Eru tillögurnar hluti af áfanganum „Heildstætt og hagnýtt“. Markmið var að vinna tillögur að skipulagi sem eflir atvinnustarfsemi og býður upp á nýja nálgun fyrir lífsgæði á svæðinu sem gengið hefur í gegnum miklar breytingar á skömmum tíma. En einhæf atvinnustarfsemi veikir innviði margra samfélaga og mikilvægt aðbregðast við. Í tengslum við námskeiðið unnu nemendur einnig þrívíddarmódel af  svæðinu og byggingunum.

Kennarar voru þau Gunnar Ágústsson skipulagsfræðingur, Samaneh Nickayin landslagsarkitekt og lektor og Sigríður Kristjánsdóttir skipulagsfræðingur og dósent. Síðastliðinn föstudag kynntu nemendur svo tillögurnar fyrir prófdómurum, kennurum, Valdísi Fjölnisdóttur og Gísla Gíslasyni frá Breið þróunarfélagi, Sævari Frey bæjarstjóra og fulltrúum frá umhverfis- og skipulagsráði Akraneskaupstaðar. Auk þess komu fleiri gestir við í samræmi við takmarkanir. Viðburðinum var einnig streymt og hafa tæplega fjögur hundruð horft á streymið. Fjöldi gesta sem kom á opnum Fab-lab smiðju Vesturlands seinna um daginn, kynnti sér tillögurnar sem vöktu mikla athygli m.a. hjá Þórdísi Kolbrúnu atvinnuvega- og nýsköpunaráðherra.

Nú hefur verið ákveðið að skipulagstillögurnar verði til sýnis á þriðju hæð við Bárugötu 10 í samvinnurými Nýsköpunarsetursins. „Allir eru hvattir til að koma og kynna sér hugmyndir nemenda sem m.a. sýna brimhótel og opnun í Steinavör. Sýningin er opin á virkum dögum frá kl.10.00 – 15.00,“ segir í tilkynningu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir