Við kynningu á Vegrúnu. Stefán Pétur Sólveigarson vöruhönnuður, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Hörður Lárusson fulltrúi hönnunarteymis Kolofon.

Vegrún er nýtt merkingakerfi fyrir ferðamannastaði

Síðastliðinn föstudag var á Djúpalónssandi á Snæfellsnesi kynnt nýtt merkingakerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði. Nefnist það Vegrún og er afurð samstarfshóps á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingar við uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Merkingarkerfið var hannað til að samræma merkingar, til einföldunar fyrir uppbyggingaraðila og til að bæta upplifun ferðamanna og auka bæði gæði og öryggi á ferðamannastöðum og öðrum áfangastöðum í náttúru landsins. Vegrún stendur öllum til boða, jafnt opinberum aðilum sem og einkaaðilum, sem hyggjast setja upp merkingar á slíkum stöðum.

„Vegrún er frábært dæmi um afrakstur árangursríkrar vinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir og með aðkomu fleiri hagaðila,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra þegar nýju merkin voru kynnt. „Með Vegrúnu fáum við langþráða samræmingu í merkingum á friðlýstum svæðum og ferðamannastöðum og heildstætt kerfi sem sækir innblástur í íslenska náttúru. Það miðar að því að merkingar falli betur að íslensku landslagi og upplifun gesta verður jákvæðari.“

Vegrúnu verður hægt að nálgast á vefnum godarleidir.is. Vefurinn er hugsaður sem upphafsreitur fyrir þá sem huga að uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum.

Vegvísar samkvæmt nýja kerfinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir