Ljósleiðaraverkefnið eitt mesta byggðaverkefni seinni ára

Landsátakinu Ísland ljóstengt lýkur á þessu ári, en síðustu styrktarsamningar Fjarskiptasjóðs við sveitarfélög um ljósleiðarauppbyggingu í dreifbýli utan markaðssvæða voru undirritaðir í lok síðasta mánaðar. Meðal annars er nú unnið að lagningu ljósleiðara víða í dreifbýli Borgarbyggðar en flest annað dreifbýli á Vesturlandi hefur nú verið tengt. Alls hafa 57 sveitarfélög í landinu hlotið styrki til að tengja um 6.200 styrkhæfa staði með ljósleiðara frá því að verkefnið hófst árið 2016 en á þeim tíma hefur ríkið hefur lagt 3.350 milljónir kr. til verkefnisins. Verkefnið hefur staðist áætlanir um kostnað og tíma þrátt fyrir um 60% aukningu á umfangi.

Ný skýrsla um Ísland ljóstengt leiðir í ljós ótvíræðan árangur og samfélagslegan ávinning af verkefninu. Í niðurstöðum skýrslunnar segir að betri fjarskiptatengingar hafi bætt lífsgæði íbúa á landsbyggðinni og aukið byggðafestu og atvinnuöryggi. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti árangur og samfélagslegan ávinning af landsátakinu á kynningarfundi í ráðuneytinu í síðustu viku.

„Ljósleiðaravæðingin er eitt mesta byggðaverkefni seinni ára í samstarfi við sveitarfélögin. Stórbættar fjarskiptatengingar hafa bylt forsendum búsetu og atvinnurekstrar í sveitum landsins. Landsátakið Ísland ljóstengt er framúrskarandi dæmi um samvinnu um sérstaka fjármögnun á vegum ríkis og sveitarfélaga til að jafna aðstöðumun milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það er afskaplega ánægjulegt að hafa gert síðustu samningana á grundvelli Ísland ljóstengt. Þau tímamót eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að lögheimili og fyrirtæki óháð búsetu eigi almennt kost á tengingu sem getur borið gígabita netsamband.“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

6.200 staðir styrktir í dreifbýli

Með lokaúthlutun fjarskiptasjóðs í lok síðasta mánaðar hefur ríkið styrkt með beinum hætti tengingu um 6.200 lögheimila og annarra styrkhæfra staða í dreifbýli landsins og stuðlað óbeint að tengingu þúsunda sumarhúsa og annarra bygginga, þótt ríkið hafi ekki lagt til þess beina fjármuni. Framlag ríkisins til verkefnisins nam alls 3.350 m.kr. Fjarskiptasjóður úthlutaði 2.950 m.kr. í styrki á árunum 2016-2021 en ráðuneytið lagði til 400 m.kr. á grunni byggðaáætlunar. Sveitarfélög og íbúar hafa jafnframt lagt til sambærilega fjármuni. Framkvæmdir eru á ábyrgð sveitarfélaganna sem hafa ýmist kosið að eiga og reka kerfin, leigja út reksturinn eða selja til fjarskiptafyrirtækja. Samið var við 17 sveitarfélög í þessum síðasta áfanga Ísland ljóstengd en alls hafa 57 sveitarfélög kosið að fara þessa samvinnuleið með ríkinu.

Mun fleiri staðir tengdir

Verkefnið fór fram úr væntingum hvað varðar umfang og kostnað, þ.e. 60% fleiri tengingar munu líklega fást fyrir sambærilegan eða jafnvel minni kostnað og upphaflega var áætlað. Verklokum sveitarfélaganna seinkar þó til ársloka 2022, sem skýrist einkum af verulega auknu umfangi. Í aðdraganda landsátaksins árið 2015 var umfangið talið vera um 3.800 staðir, heildarstofnkostnaður áætlaður allt að 8.000 m.kr. og því átti að ljúka fyrir árslok 2021. Ekki er þó tímabært að fullyrða um heildarstofnkostnað þar sem að uppbyggingu er ekki lokið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir